Arfurinn

115 Allir voru búnir að æfa sig og æfa sig og æfa sig til þess að allt yrði örugglega fullkomið – og svo gerðist eitthvað sem setti allt úr skorðum. Hannes hafði næstum því farið að hlæja. Fannst þeim þetta stressandi? Í alvöru? En svo ákvað hann að hlæja ekki. Undir venjulegum kringumstæðum hefði hann örugglega fengið útbrot af angist við það að mæta of seint í þessa keppni. Það var ekki hinum krökkunum að kenna að þeir höfðu aldrei séð undirheimana opnast og myrkrið teygja sig á móti þeim. – Er systir þín orðin hressari? spurði annar dómari út úr myrkrinu. Við heyrðum að það hefði orðið eitthvert slys í fjölskyldunni. Hannes hikaði. – Já, sagði hann svo. Hún er að minnsta kosti vöknuð. Þetta verður vonandi allt í lagi. Hann fann neglurnar graf- ast inn í lófana. Ég er spenntur að komast aftur heim að hitta hana. – Einmitt, sagði dómarinn og Hannesi fannst hann heyra hluttekningu í röddinni. – Og hvað ætlar þú að spila fyrir okkur? spurði fyrri dómarinn, eins og til að ljúka spjallinu. Hannes þurrkaði lófana á buxunum. Hann gat ekkert hjálpað Álfrúnu núna. Það eina sem hann gat var að gera sitt besta. Hann hugsaði um það hvað hann langaði til að sýna henni upptöku af þessu þegar hann kæmi heim. Pabbi hans var örugglega að taka upp á símann sinn.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=