Arfurinn

9 – Já, fínt, sagði Hannes og lagði hendurnar aftur á nótna- borðið. Tortíma. Geri það. Endilega. Það næsta sem hann vissi var að Guðvarður vomaði yfir honum. Hann greip um hökuna á Hannesi og þvingaði hann til að horfast í augu við sig. Lykt af neftóbaki, áfengi og gamalmenni, sem fór ekki alveg jafnoft í bað og það hefði átt að gera, lagðist yfir Hannes, eins og þykkur koddi hefði verið lagður yfir andlitið á honum. Hann gat ekki andað. – Lofar þú mér því, Hannes? þrumaði Guðvarður. Að taka bókina og fylgja leiðbeiningunum sem ég skil eftir handa þér? Það er slæmt að svíkja loforð við dauða menn. Hannes flýtti sér að kinka kolli. Hann var næstum hræddur við Guðvarð sem hann hafði aldrei verið áður. Það voru hvort sem er örugglega tuttugu ár þangað til Guðvarður myndi deyja og þá yrðu þeir báðir búnir að gleyma þessu tali um einhverja bók. En svo dó Guðvarður. Nokkrum vikum seinna. Og rétt áðan, þegar Hannes og mamma hans mættu á hótelið í erfidrykkjuna, beið þar lítil, mjó, gráhærð kona í svörtu pilsi og svörtum jakka, með þykk gleraugu. – Þú hlýtur að vera Hannes, sagði hún rámri röddu um leið og Hannes og mamma hans komu inn. Hann Guð- varður átti ekki marga kunningja undir sjötugu, bætti hún við þegar hún sá hvað mamma hans varð hissa á svipinn. Mamma og Hannes heilsuðu bæði konunni, sem sagðist vera frænka Guðvarðar og skiptastjóri búsins. – Hvað er það? spurði Hannes.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=