Arfurinn
106 ÞYRLAN Hannes fann að hnén á honum titruðu. Það var eins og þau virkuðu ekki almennilega lengur. Hann gat gengið en hann fann ekkert fyrir fótunum á sér, það var eins og hann titraði og í hverju skrefi var hann óviss um það hvort fæturnir myndu halda áfram að bera hann. Hann skimaði en kom ekki auga á Álfrúnu. Það var enn þá mígandi rigning og bókin í fanginu á honum gaf frá sér þunga, vonda lykt. Eins og eitthvað gamalt og myglað sem gat gert fólk veikt. Hvar var Álfrún? Hann sá hana ekki í hópnum sem þeir stóri gaurinn nálguðust. Björgunarsveitarkrakkarnir stóðu þétt í kringum eitt- hvað. Þau töluðu hátt og hreyfðu sig hratt. Einn í hópnum var að sækja eitthvað í björgunarsveitarjeppann. Annar talaði í símann. Hannes heyrði þetta allt saman óskýrt. Hann var bara enn að leita að Álfrúnu. Hann þurfti að segja takk. Af því hún hafði komið aftur. Þrátt fyrir allt hafði hún komið aftur. Þótt hann hefði verið algjör asni. Hún bjargaði honum. Hann þurfti bæði að segja takk og fyrirgefðu. Svo kom hann auga á hana. Hann sá hana þarna þar sem hún lá á jörðinni. Það var ótrúlega mikið blóð. Andlitið á henni var svo fölt að það var eiginlega grátt.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=