40742 Allt um ástina – kennsluleiðbeiningar | © Menntamálastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð 2023 66 Mynd bls. 230: Líkamlegt ofbeldi Líkamlegt ofbeldi er: • Að slá, klípa eða sparka. • Að ýta, hrinda. • Annað sem veldur meiðslum, skilur eftir sig ummerki á líkama eða veldur sársauka. Mynd bls. 231: Andlegt ofbeldi Andlegt ofbeldi er þegar einhver skaðar tilfinningar þínar. Það veldur ósýnilegum sársauka innra með þér. Nokkur dæmi um andlegt ofbeldi: • Einhver sem gerir þig leiðan eða einmana viljandi. • Talar ekki við þig né hlustar á þig, hundsar þig. • Einhver sem er alltaf að öskra eða öskrar á þig. • Einhver sem notar blótsyrði þegar hann talar við þig. • Einhver að gera grín að þér eða kallar þig ljótum nöfnum. • Einhver sem gerir lítið úr þér. Mynd bls. 232: Kynferðisleg áreitni Kynferðisleg áreitni er þegar einhver talar um einkastaði líkama þíns gegn vilja þínum eða snertir einkastaðina þína utanklæða. Mynd bls. 233: Kynferðislegt ofbeldi Kynferðislegt ofbeldi er þegar einhver snertir líkama þinn eða einkastaðina þína þegar þú vilt ekki að viðkomandi geri það. Kynferðisleg ofbeldi/misnotkun er þegar fólk gerir eitthvað kynferðislegt við þig án þíns samþykkis. Mynd bls. 234: Eltihrellir (e. stalking) Eltihrellir (e. stalker) hótar, eltir, fylgist með eða ofsækir á einhvern hátt. Eltihrellir situr um aðra til þess að stjórna og ógna. Umsáturseinelti Í dag er farið að nota orðið umsáturseinelti um það sem einnig er kallað að vera eltihrellir. Umsáturseinelti er þegar einhver áreitir þig endurtekið með óumbeðinni athygli eða samskiptum. Hegðunin er oft linnulaus, hættir ekki þótt þú biðjir um það og getur látið þér finnast eins og þú getir ekki losnað undan henni. Dæmi um umsáturseinelti er: • Endurteknir tölvupóstar eða skilaboð á samfélagsmiðlum. • Endurtekin símtöl. • Manneskjan eltir þig til og frá heimili eða vinnu. • Miðar skildir eftir heima hjá þér, í vinnu eða bílnum þínum. • Gjafir eða óumbeðin blóm eru send heim til þín. • Samfélagsmiðlar eru notaðir til að fylgjast með þér, hrella þig eða ógna, eða ónáða þig með óvelkominni hegðun. • Tæki eins og GPS eða AirTags eru notuð til að fylgjast með hvar þú ert. • Manneskjan mætir óboðin heim til þín, á vinnustaðinn eða í skólann. • Manneskjan mætir á sömu staði og þú þegar það er engin ástæða fyrir hana að vera þar.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=