| Álfakrílin | Hugmyndabanki og verkefni | 40777 | MMS 2025 | 4 Þegar markmiðið er að bæta orðaforða til að styrkja námshæfni barna er talið árangursríkast að velja orð úr þrepi 2. Nemendur þurfa að hafa mjög góða þekkingu á innihaldi texta og geta nýtt sér hliðstæð orð til að geta áttað sig á merkingu orða úr þrepi 2. Það er líklegt að nemendur með veikan grunnorðaforða eigi í verulegum erfiðleikum með millilagsorðaforða og því mikilvægt að kenna hann sérstaklega til að merking orða skiljist að fullu. Það hefur jákvæð áhrif á námsárangur þeirra seinna meir og eykur færni á að skilja og nota flóknari texta, bæði í skóla og í daglegu lífi. Það er mikilvægt fyrir öll börn að læra orð úr millilagi orðaforðans, ekki síður leikskólabörn, sem mun nýtast þeim áður en formleg lestrarkennsla fer fram. Hljóðkerfisvitund Góð hljóðkerfisvitund er ein af grundvallarforsendum árangursríks lestrarnáms hjá börnum. Hún felur í sér almenna færni til að greina og vinna með hljóðlega uppbyggingu tungumálsins, óháð merkingu orðanna. Hljóðkerfisvitund snýst um hæfni til að brjóta málsgreinar upp í stök orð, orð í atkvæði og atkvæði í stök hljóð. Það er mikilvægt að byrja snemma að þjálfa hljóðkerfisvitund, t.d. með því að leika sér að ríma, klappa atkvæði, syngja saman, lesa skemmtilegar rímaðar vísur eða kvæði með söguþræði. Seinna er svo gott að bæta við æfingum í samræmi við getu og þroska, eins og t.d. að greina í sundur einstök hljóð, tengja saman hljóð eða læra um margræð orð. Slík markviss þjálfun styrkir undirstöður lestrarnáms. Hugmyndabanki með verkefnum Áhersluorð/lykilorð Í þessari bók eru orð úr millilagi sérstaklega tekin fyrir og þau útskýrð á einfaldan hátt. Á hverri síðu er eitt orð tekið fyrir og útskýrt. Orðið er skáletrað til að vekja athygli lesandans og hvetja hann til að staldra við og útskýra það frekar. Á sumum opnum má finna fleiri skáletruð orð sem eru útskýrð frekar í kennsluleiðbeiningum. Við lestur bókarinnar er gott að stoppa þegar lykilorð kemur fyrir og útskýra merkinguna. Eftir útskýringuna er gott að segja setninguna aftur þannig að merkingin komist betur til skila. Uglukisinn Bússi Uglukisann Bússa má finna á flestum blaðsíðum bókarinnar. Bússi er gæludýr álfafjölskyldunnar. Hann er hálfur köttur og hálf ugla. Bússi er forvitið gæludýr og vill fylgjast með hvað tvíburaálfarnir Nana og Nói eru að gera. Hann læðist út með Nönu og Nóa og felur sig á hinum ýmsu stöðum í bókinni svo að hann geti fylgst með systkinunum. Uglukisinn Bússi hefur það hlutverk að gefa börnum tækifæri til að læra um afstöðuhugtökin. Þannig er Bússi að fela sig t.d. undir borði, inni í skáp og á bak við kodda. Það er því tilvalið að finna Bússa og hvetja börnin til að segja hvar hann sé staðsettur.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=