3 | Álfakrílin | Hugmyndabanki og verkefni | 40777 | MMS 2025 | Inngangur Álfakrílin er barnabók ætluð börnum á leikskólaaldri og yngsta stigi í grunnskóla. Bókin er í tveimur erfiðleikastigum. Á hverri opnu er lengri og þyngri texti sem hentar vel til upplesturs og fyrir börn sem hafa færni á að lesa flóknari texta sjálf. Einnig er styttri og einfaldari texti sem hentar vel fyrir yngri börn og þau sem hafa lítið úthald í bókalestur. Sá texti hentar einnig fyrir börn sem eru sjálf byrjuð að lesa einfalda texta. Markmið bókarinnar er að gefa starfsfólki leik- og grunnskóla, sem og börnum á yngsta stigi grunnskóla, verkfæri til að efla orðaforða barna með einfaldri og markvissri kennslu. Að auki gagnast bókin vel við kennslu fyrir börn og starfsfólk með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Aðferðin byggist á því að valin eru ákveðin áhersluorð, eða orð úr þrepi 2 (e. tier 2), sem börn eru líkleg til að eiga erfitt með að skilja og þau útskýrð sérstaklega. Starfsfólk les sögubókina með börnunum og útskýrir merkingu ákveðinna áhersluorða sem koma fyrir í bókinni. Fyrir börn sem lesa sjálf styðja kennarar eða foreldrar barnið við lesturinn og útskýra áhersluorðin þegar þau koma fyrir. Rannsóknir sýna að bein tengsl séu á milli orðaforða og lesturs. Til að skilja samhengi í texta þurfa börn að þekkja orð og setningar sem þau heyra og lesa. Á skólaárunum er lestur lykilatriði til að efla og auka orðaforða. Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á að það að blanda saman lestri og samræðum skili góðum árangri við að efla orðaforða barna. Hugtakið samræðulestur (e. dialogic reading) hefur verið notað til að lýsa þeirri aðferðafræði. Samræðulestur er kerfisbundin leið til að efla málþroska barna með samlestri. Aðferðin felst í því að virkja barnið til þátttöku með því að spyrja spurninga, ræða innihald sögunnar og tengja við eigin reynslu. Kennarinn er fyrirmynd og gegnir mikilvægu hlutverki með því að sýna hvernig skal beita tungumálinu, spyrja spurninga og veita endurgjöf. Með samræðulestri er verið að ýta undir læsisþróun barna og dýpka skilning á efninu. Orðaþrepin þrjú Þegar orðaforði er kenndur þarf að huga vel að því hvaða orð eru tekin fyrir. Það þarf að passa upp á að velja ekki algeng orð sem eru líkleg að börnin læri af umhverfi sínu hverju sinni. Orðaforði er gjarnan flokkaður í þrjú þrep. Þrep 1: eða grunnorðaforði eru algeng orð sem flestir þekkja og skilja. Þessi orð eru hluti af daglegu lífi eins og t.d. hús, bíll og að ganga. Þetta eru orð sem börn tileinka sér á fyrstu stigum máltökunnar og þarf yfirleitt ekki að kenna sérstaklega. Þrep 2: eða millilag orðaforðans vísar til sjaldgæfari orða yfir algeng hugtök. Þetta eru orð sem eru allsráðandi í rituðum texta eins og undrandi í staðinn fyrir hissa og stúlka í staðinn fyrir stelpa. Nemendur þurfa að heyra þessi orð í viðeigandi samhengi nokkrum sinnum til að skilja merkingu þeirra. Þrep 3: eða sértækur orðaforði eru orð sem tengjast ákveðnu námsefni eða fagsviði. Þetta eru sjaldgæf orð sem nemendur þurfa að kunna til að skilja fræðilega texta í námi, t.d. orðin frumefni og öreind.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=