Á ferð um samfélagið

MENNING OG SAMFÉLAG : ÞJÓÐFÉLAGSFRÆÐI 63 Atvinnuskipting. Ef við skoðum hvaða störf karlar annars vegar og konur hinsvegar velja kemur kynbundinn munur skýrt fram. Mun fleiri karlar en konur starfa við landbúnað, fiskveiðar og í iðnaði. Töluvert fleiri konur en karlar starfa hins vegar við þjónustugreinar. Til þjónustugreina teljast meðal annars fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónusta. Atvinnuþátttaka fólks hér á landi er með því mesta sem þekkist í heiminum. Um 78% kvenna á Íslandi eru á vinnumarkaði og um 83% karla. Uppeldi og menntun Án barnsfæðinga eða nýliðunar myndu flest samfélög deyja út á skömmum tíma. En það er ekki nóg að eignast börn, það þarf líka að ala þau upp og kenna þeim leikreglur samfélagsins, það er að félagsmóta þau. Ábyrgð foreldra er mikil. Fyrir 200 árum var mikið lagt upp úr aga, börn áttu að hlýða foreldrum sínum og öðrum fullorðnum. Ef börn óhlýðnuðust áttu þau von á líkamlegum refsingum. Foreldrar höfðu sjaldan tíma til að leika við börnin á þessum tíma og það voru heldur engin viðmið sem sögðu að þeir ættu að gera það. Litið var á börn sem smækkaða útgáfu af fullorðnum. Nær undantekningarlaust urðu börn að hjálpa til við vinnu á heimilinu – launalaust. Skólagangan var stopul, flestum var kennt heima. Bara örfáir áttu kost á að fara í háskóla, yfirleitt synir embættismanna en enginn háskóli var til í landinu á þessum tíma. Að þessu leyti er bændasamfélagið á 19. öld og samfélag Yanómama-manna svipuð. Í frumskógum Amason er líka lögð áhersla á að börnin séu hlýðin og þar sem víðast annars staðar þykir það góður siður að sýna þeim sem eldri eru virðingu. Hjá Yanómama-fólkinu eru engir skólar og fólkið þar kann hvorki að lesa né skrifa. Í íslenska bændasamfélaginu lærðu börn af foreldrum sínum það helsta sem þurfti til að lifa af í harðbýlu landi. Það sama á við um unga fólkið í Amason, það lærir á umhverfi sitt með því að fylgjast með þeim sem eldri eru. HUGTAK Kynhlutverk Kynhlutverk segir til um hvernig þú átt að hegða þér í samræmi við ríkjandi viðmið og gildi sem eru almennt viðurkennd fyrir hvort kyn. Kynhlutverk eru félagslega lærð en ekki meðfædd og því ólík milli samfélaga. Mótunin hefst á unga aldri við að börn sjá hvernig karlar og konur hegða sér heima, í fjölmiðlum og í samfélaginu. Kynhlutverk móta sjálfsmynd einstaklingsins, stýra samskiptum við aðra, hafa áhrif á atvinnuþátttöku, fjölskyldulíf og fjölmarga aðra þætti. Fjölskyldan í bændasamfélaginu var mun fjölmennari en kjarnafjölskyldan nú á dögum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=