156 Sameinuðu þjóðirnar Sameinuðu þjóðirnar (Sþ) voru stofnaðar árið 1945. Í lok seinni heimstyrjaldar höfðu yfir sextíu milljónir manna fallið í styrjöldinni og enn fleiri særst. Þjóðir heims voru sammála um að slíkt stríð mætti aldrei endurtaka sig vegna þeirra hörmunga og þjáninga sem það hafði í för með sér fyrir alla aðila. Eitt fyrsta verk Sameinuðu þjóðanna var gerð mannréttindasáttmála. Öll aðildarríkin urðu að samþykkja sáttmálann. Ísland var ekki eitt af stofnríkjum Sþ en fékk aðild 9. nóvember 1946. Helstu markmið Sameinuðu þjóðanna eru að • stuðla að friði í heiminum • vinna að félagslegri og efnahagslegri þróun í heiminum • standa vörð um almenn mannréttindi Allsherjarþingi Sþ var komið á fót árið 1945 en þá hittust allar aðildarþjóðir og tóku ákvarðanir um hvað Sþ áttu að standa fyrir. Allsherjarþingið hefur lítil völd og samþykktir þess eru ekki bindandi fyrir aðildarríkin en hafa táknrænt gildi því þær endurspegla skoðun flestra þjóða. Á þinginu hefur hvert ríki eitt atkvæði. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna var einnig stofnað árið 1945 en í því eiga aðeins 15 ríki sæti. Fastafulltrúarnir eru fimm, Bandaríkin, Kína, Rússland, Frakkland og Bretland en tíu fulltrúar frá öðrum aðildarlöndum eru kosnir til tveggja ára í senn. Öryggisráðið er eina stofnun Sameinuðu þjóðanna sem getur beitt þá sem rjúfa frið, efnahagslegum og hernaðar- legum refsiaðgerðum. Til að hægt sé að beita sjálfstæð ríki þvingunum verða fastafulltrúarnir fimm að vera sammála um að beita refsiaðgerðum og ekki að beita neitunarvaldi. Neitunarvald þýðir að hægt er að koma í veg fyrir að ákvörðun sé tekin eða ákvörðun taki gildi. Fastafulltrúar öryggisráðs Sþ hafa neitunarvald. Ef einn eða fleiri fastafulltrúanna beitir neitunarvaldi getur öryggisráðið ekki tekið ákvörðun um að beita þeim refsiaðgerðum sem það annars getur sett fram. Margir hafa gagnrýnt hvernig öryggisráðið er skipað það er að fimm ríki eigi þar fast sæti og hafi neitunarvald. Slík skipan endurspeglar úrelta mynd þar sem sigurvegarar seinni heimsstyrjaldarinnar ráða enn ríkjum. Byggingar Sameinuðu þjóðanna í New York.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=