Á ferð um samfélagið

142 Viðmið og frávik Viðmið eru sérstakar skráðar og óskráðar reglur sem segja okkur hvernig við eigum að haga okkur við mismunandi aðstæður og þau eru til í öllum samfélögum. Sum viðmiðanna eru formleg en önnur óformleg. Formlegu viðmiðin eru skráð og þau standa yfirleitt sterkt í sam- félaginu. Dæmi um formleg viðmið eru: • Heima: Fjölskyldan hefur sett þá reglu að öllum heimalærdómi eigi að vera lokið áður en þú hittir vini þína á kvöldin. • Skólinn: Þú mátt ekki tala í farsíma á meðan á kennslu stendur. • Vinnan: Þú verður að fá leyfi yfirmanna þinna ef þú ætlar þér að taka auka frídag. • Opinber yfirvöld: Þú mátt ekki aka yfir leyfilegum hámarkshraða á vegum landsins. Óformlegu viðmiðin eru óskráð og ekki viðurkennd opinberlega sem reglur enda kemur hvergi fram hvernig eigi að bregðast við broti á þeim. Þú mátt samt búast við viðbrögðum eða refsingu brjótir þú þau. Dæmi um óformleg viðmið eru til dæmis að sýna almenna kurteisi og þakka fyrir matinn eða þá að halda dyrum opnum fyrir aðra og ekki reka við á almannafæri. Frávik Almenn skilgreining á hugtakinu frávik er að hegðun einstaklings eða hóps fylgi ekki viðurkenndum viðmiðum og sam- félagið bregst við á einhvern hátt. Ef þú hegðar þér öðruvísi en aðrir ætlast til þá hefur þú brotið viðmið og hegðun þín er orðin að fráviki. Þetta hljómar hugsanlega nokkuð harkalega en yfir- leitt er það í lagi, því allir hafa einhvern tíma brotið viðmið. Stundum líður þér ekki vel yfir að hafa farið yfir mörkin, til dæmis ef þú hefur sýnt vini eða vinkonu dónalega framkomu. Í öðrum tilfellum getur þér verið alveg sama eða jafnvel verið nokkuð stolt(ur) þótt þú hafir brotið viðmið. Dæmi um það er ef þú klæðir þig óvanalega eða sýnir fórnfýsi langt umfram það sem eðlilegt þykir. Brot á viðmiðum eru miklu fleiri og fjölbreyttari en viðmiðin sjálf. Enginn brýtur öll viðmið samfélagsins og það er heldur enginn sem fer eftir þeim öllum. Talið var að Grýla tæki og æti börn sem sýndu frávikshegðun.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=