TRÚARBRÖGÐ : ÞJÓÐFÉLAGSFRÆÐI 139 Viðfangsefni 15. Hver eru helstu trúarbrögð heims? Taktu fyrir heimsálfurnar og kannaðu hver staða helstu trúarbragða er innan þeirra. 16. Aflaðu þér upplýsinga um hindúisma, helstu guði, útbreiðslu og stéttskiptingu sem grundvallast á þessari trú. Af hverju flokkast hindúismi ekki sem hnattræn trúarbrögð? 17. Notaðu námsbækur, fræðirit, netið eða aðrar heimildir og leitaðu upplýsinga um annars vegar þróunarkenningu Darwins og hins vegar sköpunarkenningu Biblíunnar. Af hverju stangast þessar kenningar á? 18. Stangast kristni á við trú á álfa og huldufólk? Leitaðu upplýsinga og rökstyddu svarið. Heimildavinna 19. Veldu eitt af hnattrænu trúarbrögðunum og kynntu þér þau nánar. Notaðu námsbækur, fræðirit, netið eða aðrar heimildir við upplýsingaöflunina. 20. Bjóðið sóknarprestinum, leiðtogum annarra trúarhópa eða guðleysingja í heimsókn til að ræða og svara spurningum um trúmál. Bekkurinn verður að undirbúa spurningarnar fyrirfram. 21. Notaðu námsbækur, fræðirit, netið eða aðrar heimildir og reyndu að finna afstöðu trúarbragða (hindúatrú, búddatrú, gyðingdóms, kristni og íslams) og trúleysingja til eftirfarandi atriða: afvopnunar, fóstureyðinga, skilnaða, vandamála þróunarlanda, framhjáhalds, kynþáttamisréttis, líknardráps og samkynhneigðar. 22. Leitaðu upplýsinga um búddatrú í Tíbet og hvaða hlutverki Dalai Lama gegnir þar. 23. Hvað veist þú um ofsóknir á hendur gyðingum? Notaðu námsbækur, fræði- rit, netið eða aðrar heimildir og reyndu að finna skýringar á því af hverju gyðingar voru ofsóttir. 24. Notaðu námsbækur, fræðirit, netið eða aðrar heimildir og reyndu að bera saman hlutverk Jesú, Múhameðs og Búdda í trúarbrögðum sem þeir eru fulltrúar fyrir. Hvað er líkt og hvað er ólíkt með þeim? 25. Hvernig skilgreinir þú hugtakið íslömsk bókstafstrúarhreyfing? Sumir múslímar vilja innleiða Sharía-lög sem lög alls samfélagsins. Sharía er skilgreint sem íslömsk lög sem eru byggð á helgibók múslíma, Kóraninum. Notaðu námsbækur, fræðirit, netið eða aðrar heimildir og kynntu þér nánar sharía-lögin. 26. Veldu þér ein trúarbrögð og kannaðu hvort þau hafi mismunandi afstöðu til karla og kvenna.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=