TRÚARBRÖGÐ : ÞJÓÐFÉLAGSFRÆÐI 137 Eru Íslendingar trúaðir? Í könnun frá Siðmennt 2015 kom í ljós að um 46% Íslendinga telja sig trúaða. Margir eru á þeirri skoðun að trúmál eigi að vera einkamál hvers og eins og að fólk eigi að geta tekið sjálfstæða afstöðu til stóru spurninganna um lífið og tilveruna. Því hefur myndast markaður á Vesturlöndum fyrir hópa sem bjóða upp á einhvers konar andlega trúariðkun, til dæmis þar sem blandað er saman austrænum og vestrænum trúarbrögðum. Enn aðrir aðhyllast veraldarhyggju en það er stefna sem leggur meiri áherslu á jarðlífið en „framhaldslíf eftir dauðann“. Þrátt fyrir aukna veraldarhyggju í okkar samfélagi nota flestir Íslendingar þjóðkirkjuna við athafnir eins og við skírn, fermingu, giftingu og jarðarfarir. Ein af hugsanlegum skýringum á minnkandi vægi trúar í vestrænum samfélögum er að tækni og vísindi hafa að hluta til leyst trúarbrögðin af hólmi. Sumir telja að eftir því sem þekking eykst, því veikari fótum standi trúin í samfélaginu. Nú á dögum eru flestir þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að taka sköpunarsögu Biblíunnar bókstaflega. Jörðin er bara sem eitt lítið sandkorn á ystu mörkum Vetrarbrautarinnar, sem aftur er bara ein af ótalmörgum stjörnuþokum í alheiminum. Svo virðist sem vísindin geti nú veitt svör við spurningum sem áður var talið að trúin ein gæti svarað. Við getum samt ekki litið fram hjá því að trúin býður fjölda fólks upp á svör við spurningum sem vísindin geta ekki svarað. Hún getur sagt fólki að tilgangur þess hér í lífinu hafi dýpri merkingu – að það sé ástæða fyrir tilveru okkar hér á jörðu. Hún getur hjálpað fólki að sætta sig við dauðann. Og hún getur kennt fólki að það er hluti af einhverju yfirnáttúrulegu eða guðlegu sem er miklu stærra en fólkið sjálft. Trú og heilinn Nýlegar rannsóknir taugasérfræðinga hafa sýnt að trú hefur áhrif á heilastarfsemi. Búddistar voru beðnir að hugleiða og heilalínurit var tekið af þeim um leið. Í ljós kom að við hugleiðslu dró úr starfsemi hvirfilblaðanna, sem stjórna því hvernig við skynjum okkur sjálf í tíma og rúmi. Þetta gat valdið því að skilin milli sjálfsins og umheimsins dofnuðu hjá hugleiðandanum og honum fannst hann sameinast alheiminum. Margir hafa lýst svipaðri reynslu við hugleiðslu, leiðsluástand og bæn. Eru Íslendingar trúaðir? Maðurinn, bls. 287
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=