132 Trúarbrögð Allt frá upphafi hefur mannkynið trúað á einhvern æðri mátt. Fyrir marga er trúin það mikilvægasta í lífinu. Fyrir aðra er trúin tengd ákveðnum siðum og venjum í samfélaginu. Enn aðrir láta sig ekkert varða um trú eða jafnvel hafna henni og hvers konar trúariðkun. Trúarbrögð hafa mismikil áhrif á menningu samfélaga og því hafa félagsvísindamenn áhuga á að rannsaka áhrif þeirra á líf fólks. Það er hins vegar ekki hlutverk vísindanna að segja hvaða trúarbrögð eru best eða réttust. Trú snýst fyrst og fremst um grundvallarhugmyndir hvers og eins um lífið og tilveruna – og þar er engin ein skoðun réttari en önnur. Ástæður fyrir áhuga félagsvísindamanna á að rannsaka áhrif trúarbragða í samfélaginu eru meðal annars vegna þess að: • Í nánast öllum ríkum jarðar eru trúarhreyfingar meðal mikilvægustu aðilanna sem bjóða bágstöddum aðstoð, hvort sem um er að ræða húsaskjól, matargjafir eða fjárhagsaðstoð. • Margir trúarhópar reka almenna skóla þar sem börn fá kennslu í veraldlegum fræðum svo sem lestri, skrift og reikningi auk trúarbragðafræðslu. • Trúarhreyfingar taka oft afstöðu til ólíkra pólitískra málefna og reyna að afla þeim stuðnings innanlands eða á alþjóðavettvangi. Trúarhreyfingar hafa til dæmis barist gegn fátækt og fyrir bættri menntun eða heilbrigðisþjónustu um allan heim. Dæmin hér að ofan eru örstutt sýnishorn af því hvernig trúarhreyfingar taka virkan þátt í málefnum samfélagsins. Uppruni trúar Við upphaf mannkynssögunnar trúði fólk á náttúruna, þar var hægt að tilbiðja áþreifanlega hluti eins og steina eða tré. Hugmyndirnar gengu út á að öll fyrirbæri hefðu sál og að ýmsir yfirnáttúrulegir kraftar héldu til í náttúrunni. Náttúrutrúin eða frumtrúarbrögðin, hjálpuðu fólki að skilja tilveruna og fá tilfinningu fyrir að það gæti haft einhver áhrif á umhverfi sitt. Guðir voru tilbeðnir í von um góða uppskeru – og þannig tengdist trúin baráttu mannsins við náttúruöflin. Í heiðni var þrumuguðinn Þór talinn sterkastur allra ása. Norræn goðafræði er samnefni þeirra heiðnu trúarbragða sem voru iðkuð á Norðurlöndum á víkingatímanum. Hún lagðist niður um það leyti sem kristni breiddist út á Norðurlöndum en var endurvakin síðar undir nafninu ásatrú.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=