Trunt, trunt og tröllin - rafbók

72 Tröll nafninu á og sagði henni upp alla söguna. Hún tók við blaðinu og skalf af hræðslu því hún óttaðist að nafnið kynni að vera rangt. Biður hún bónda að vera hjá sér þegar kerling komi. Hann segir: – Nei, og varstu ein í ráðum , þegar þú fékkst henni ullina svo það er best að þú gjaldir ein kaup- ið. Fer hann burtu síðan. Gettu aftur, húsfreyja Nú kemur sumardagurinn fyrsti og lá konan ein í rúmi sínu en enginn maður annar var í bænum. Heyrir hún þá dunur miklar og undirgang og kem- ur þar kerling og er nú ekki frýnileg . Hún snarar inn á gólfið vaðmálsstranga miklum og segir: – Hvað heiti ég nú, hvað heiti ég nú? Konan var nær dauða en lífi af ótta og segir: – Signý? – Það heiti ég ekki, það heiti ég ekki, og gettu aftur, húsfreyja, segir kerling. – Ása? segir hún. Kerling segir: – Það heiti ég ekki, það heiti ég ekki, og gettu enn, húsfreyja! – Ekki vænti ég að þú heitir Gilitrutt? segir þá konan. Kerlingunni varð svo bilt við þetta að hún datt kylliflöt niður á gólfið og varð þá skellur mikill. Reis hún upp síðan, fór burtu og sást aldrei síðan. Konan varð nú fegnari en frá megi segja yfir því að hún slapp frá óvætti þessum með svona góðu móti og varð hún öll önnur. Gjörðist hún iðjusöm og stjórnsöm og vann æ síðan sjálf ull sína. Þjóðsögur Jóns Árnasonar vera einn í ráðum : skipuleggja án hjálpar frá öðrum ekki frýnileg : ófögur að sjá óvættur (kk): ófreskja, forynja iðjusöm : dugleg, vinnusöm Að lestri loknum 1. Finndu Eyjafjöll á Íslandskortinu. Hvaða jökull er þar upp af? 2. Af hverju vann konan ekki ullina sjálf? 3. Hvað líkaði bónda illa í byrjun sögunnar? 4. Af hverju varð konan svo áhyggjufull þegar leið á veturinn? 5. Hvað var bóndi að gera uppi á fjalli? 6. Hvað heldur þú að Gilitrutt hefði gert ef konan hefði ekki vitað nafnið? 7. Hvernig komst konan út úr vandræðum sínum og hvaða áhrif hafði þessi reynsla á hana? 8. Hvaða einkenni þjóðsagna eða ævintýra hefur þessi saga? Skoðaðu það sem sagt er um þetta fremst í bókinni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=