95 MAT Á MARGA VEGU : SKAPANDI SKÓLI Gagnapróf Gagnapróf getur verið hefðbundið einstaklingspróf eða samvinnupróf, ritgerðarpróf eða próf annarrar gerðar, allt eftir áherslum námsins eða hugmyndaflugi kennarans. Eins og heiti prófsins gefur til kynna mega nemendur koma með gögn í prófið. Þetta geta annars vegar verið skýrt tilgreind gögn eins og orðabækur í tungumálapróf eða námsbækur í viðkomandi fagi, eða hins vegar hver þau gögn sem nemendur telja líklegt að gætu komið að gagni við próftökuna (verkefni, námsbækur, orðabækur, tölvur, símar – jafnvel foreldrar gætu talist til prófgagna ef ekki væru settar neinar skorður). Eina skilyrðið er auðvitað að réttur aðili taki prófið. Mikilvægt er að leggja á það áherslu við nemendur að þeir þurfi að undirbúa sig vel fyrir prófið. Oft er lítið gagn af öllum gögnunum ef enginn undirbúningur hefur farið fram áður. Þá getur farið svo að mestur tíminn fari í að leita að upplýsingum og of lítill tími gefist til að leysa verkefnin eða svara spurningunum. Svindlmiðapróf Svindlmiðaprófin eru líkt og samvinnuprófin hefðbundin að gerð. Það sem helst greinir þau frá venjulegum prófum er að nemendur fá leyfi til að koma með svonefndan svindlmiða í prófið og mega nýta sér það sem á honum stendur. Best er að hafa skýr viðmið um stærð og gerð sjálfs miðans, miða til dæmis við blað af stærðinni A5, handskrifað af próftaka báðum megin, en þar lýkur afskiptum kennarans af miðanum. Hversu mikið af upplýsingum og þekkingaratriðum nemendum hefur tekist að koma fyrir á miðanum er undir hverjum einstaklingi komið. Þegar þessi háttur er hafður á eru nemendur oft miklu skipulagðari og markvissari í prófaundirbúningnum. Heilmikið nám felst í að meta hvaða upplýsingar gott er að hafa með sér í prófið og eftir situr þekking sem síast inn í stað einhvers konar minnislista sem hefur ekki neina merkingu fyrir nemendur að próftímanum loknum. Gjarnan skapast góður samstarfsandi milli nemenda við undirbúning svindlmiðaprófa, þeir ræða sín á milli um efni miðanna sinna, bæta atriðum inn eða undirstrika einhver atriði sem almennt eru talin mikilvæg.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=