92 Próf Samvinnupróf Samvinnupróf eru í rauninni ekki frábrugðin hefðbundnum einstaklingsprófum á nokkurn hátt annan en þann að tveimur til þremur nemendum er falið að leysa prófið saman. Grundvallaratriði þegar þessi leið er farin er að nemendum sé fyllilega ljóst að allir bera jafna ábyrgð, allir verða að leggja sig fram í góðri samvinnu við aðra í hópnum þannig að sú færni og þekking sem parið eða hópurinn býr yfir fái að njóta sín. Sjaldan koma upp vandamál þegar um samvinnupróf er að ræða en ef upp koma óleysanleg ágreiningsatriði innan hóps á meðan á prófi stendur þarf kennarinn að meta hvernig best má vinna úr því. Gott er að leggja einstaklingskönnun fyrir nemendur eftir prófið þar sem hver og einn metur framlag sitt og framlag félaga í hópnum. Allir fá þá tækifæri til að koma að athugasemdum um samvinnuna eða annað viðkomandi prófinu sjálfu og próftökunni. Best fer á því að kennari velji saman próffélaga og að nemendur viti ekki fyrir fram með hverjum þeir vinna. Hver og einn þarf þá að undirbúa sig vel fyrir alla þætti prófsins og getur ekki falið suma þeirra félögum sínum. Merkilegt er að fylgjast með því hvernig nemendur laða fram þekkingaratriði hver hjá öðrum þegar próf er haldið með þessum hætti og því má halda fram að þessi gerð prófa sé ekki síður tæki til náms en mats á námi. Á fylgivef bókarinnar er að finna dæmi um einstaklingskönnun sem nemendur fylla út eftir samvinnupróf.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=