91 MAT Á MARGA VEGU : SKAPANDI SKÓLI Mat á marga vegu Í skólastarfi sem miðar að fjölbreyttum kennsluháttum, sköpun og gagnrýninni hugsun nemenda er mikilvægt að námsmat taki mið af þeim áherslum. Nám í grunnskóla tekur ekki bara til þekkingaratriða og færniþátta í þröngum skilningi heldur einnig félagslegra samskipta, verkfærni, skipulags, útsjónarsemi, inn- sæis og hugmyndaflugs, svo nokkur atriði séu nefnd. Þess vegna þarf kennarinn, rétt eins og nemandinn, að beita hugmyndaflugi sínu og sköpunarkrafti og leita margra leiða til að meta framfarir og árangur nemenda. Við námsmat þarf ætíð að hafa í huga bæði markmið námsins sjálfs og tilganginn með matinu. Er ætlunin að meta hvort nemendur hafi hlustað vel og lesið og muni ákveðnar staðreyndir, svo sem hvað foreldrar og bræður Snorra Sturlu- sonar hétu eða helstu afkomendur Auðar djúpúðgu? Skiptir ef til vill meira máli að nemendur búi yfir einhverjum skilningi á uppvexti og lífshlaupi þeirra Auðar og Snorra, setji sig í þeirra spor og hafi raunverulega tilfinningu fyrir því hvernig lífi þeirra var háttað, átti sig eitthvað á því þjóðfélagi sem var hér á landi við landnám eða á átakatímum Sturlungaaldar og setji sögu þessara höfðingja í samhengi við aðra þjóðfélagshópa og þá atburði sem þá mótuðu Íslandssöguna? Á að kanna grunnskilning nemenda á deilingu eða skiptir mestu að út úr deilingardæminu komi hárrétt svar? Og svo má spyrja hvort þekking á staðreyndum og færniþættir haldist ekki í hendur við skilning og næmi? Hættan er sú að einföld þekkingaratriði sem auðvelt er að mæla og sannreyna með spurningu og svari verði helsti mælikvarðinn þegar til prófs kemur en ekki innsæi og efnisríkt nám. Stundum er ætlunin að kanna getu nemenda til að viðhafa nákvæmni í vinnubrögðum eða færni til að setja þekkingu sína fram með skipulögðum hætti en stundum er mikilvægara að sjá hvort nemendur búi yfir þeirri hæfni að geta farið ólíkar leiðir að sama marki, að þeir kunni að bjarga sér. Mikilvægt er að bjóða nemendum upp á mismunandi leiðir til að sýna fram á árangur og afrakstur af því námi sem farið hefur fram og stuðla þannig að einstaklingsmiðun, opnum kennsluháttum og sveigjanleika í öllu skólastarfi. Hér verður brugðið upp nokkrum myndum af því hvernig fara má ólíkar leiðir í námsmati, bæði með prófum og öðrum hætti. Hefðbundin eða venjuleg próf verða látin liggja á milli hluta en aðeins minnt á að spurningar og viðfangs- efni séu skýrt mótuð og aðgengileg þannig að nemendur velkist ekki í vafa um um hvað þau snúast. Þetta á að sjálfsögðu við um námsmat yfirleitt.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=