Skapandi skóli

85 TÆKNI OG TJÁNING : SKAPANDI SKÓLI Á eftirvinnslustigi er kvikmyndin sett saman. Hún er klippt og hljóðsett, tónlist er fundin til, leikin eða samin sérstaklega og sett inn þar sem við á. Þarna geta þó nokkuð margir aðilar komið við sögu en allur gangur er á því, allt eftir aðstæðum hverju sinni, áhugasviði nemenda og færni, hvort um mikla samvinnu alls hópsins er að ræða á þessu stigi eða einstaklingsvinnu og samvinnu örfárra einstaklinga. Sýning Að lokum er svo komið að útgáfu myndar eða sýningu en í henni koma saman og endurspeglast allir þættir kvikmyndagerðarinnar. Segja má að hún sé bæði hreyfiafl og umbun í þeirri orkufreku vinnu sem kvikmyndagerðin krefst. Mat á kvikmynd sem verkefni Þegar meta á kvikmynd og annað miðlunarefni eftir nemendur í grunnskóla er mikilvægt að einblína ekki á lokaafurðina heldur skoða allt vinnuferlið að baki. Við úrlausn verkefnisins ættu að hafa orðið til ákveðnar vörður á ýmsum stigum sem hægt er að staldra við, auk þess sem tækifæri eiga að gefast í sjálfu vinnuferlinu fyrir kennara og nemendur til að fara yfir það sem komið er og ræða næstu skref. Góður tímapunktur til að hlaða vörðu og fara yfir stöðuna er við lok handritsgerðar áður en haldið er í tökur. Á þeim tímapunkti er enn hægt að skerpa á þeirri hugmynd sem unnið er með og fara yfir sýn nemenda á lokaafurðina. Þarna er einnig tækifæri til að fara yfir þætti eins og myndbyggingu og sjónarhorn í tökum og fyrirkomulag á tökustað. Það getur svo verið gott að setja niður aðra vörðu undir lok samsetningar, áður en samsett afurð er sett í sýningu eða henni skilað. Þá er enn hægt að skoða hvernig hlutirnir raðast saman, hvort frásögnin sé nógu skýr, velta fyrir sér anda myndarinnar, ræða val á tónlist og ákveða hvort viðeigandi hlutir séu allir á réttum stöðum. Þegar lokaafurðin er svo metin er mikilvægt að hafa í huga hvað lagt var upp með. Ef sett voru einhver sérstök markmið sem snúa beint að kvikmyndagerðinni sjálfri, eins og til dæmis að fylgja tilteknum reglum við myndbyggingu og val á sjónarhornum, er hægt að meta þau atriði sérstaklega um leið og farið er yfir atriði eins og efnistök eða úrvinnslu hugmynda og upplýsinga. Mikilvægt er að hafa ávallt í huga að nám í vinnu af þessu tagi fer fram í öllu ferlinu og felur svo miklu meira í sér en hægt er að greina í lokaafurðinni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=