75 TÆKNI OG TJÁNING : SKAPANDI SKÓLI flokkun og ríkjandi skipan á sjónrænan hátt. Oft má bregða á leik með þessa hluti og setja myndræn gögn í skemmtilegan búning, stöplar og línur geta tekið á sig ýmsar myndir og magntölur má setja fram í litum og stærðum á lýsandi hátt. Sumu er auðvelt að koma í kring í tölvu, annað getur gefist betur með gömlum og góðum aðferðum. Lifandi flutningur og skjákynningar Munnleg kynning flutt með stuðningi af texta og myndum á tjaldi snýst fyrst og fremst um að miðla efni til áhorfenda á skýran og skilmerkilegan hátt. Kynningin sjálf byggist oftast á texta sem nemendur hafa skrifað, myndskreytt og æft sig í að kynna. Gott kynningarefni á að vekja áhuga áhorfenda og getur reyndar verið af ýmsu tagi, skjákynningar geta birt teikningar og ljósmyndir, töflur og gröf, hljóðupptökur og hljóðefni, hreyfimyndir og myndskeið eða blöndu af þessu öllu. Mörg kerfi eru í boði og bjóða sum upp á tilkomumikla flettimöguleika, alls konar grafík og myndræna grunna. Mikilvægt er samt að skraut og hrif (e. effects) taki ekki yfir kynninguna eða drepi henni á dreif. Byggja má skjákynningu á myndum en ef texti er uppistaða í kynningu er gott að miða við 7x7-regluna en samkvæmt henni ætti textinn á hverri skjámynd ekki að fara yfir 7 línur og 7 orð í línu. Sumir tala um 6x6-reglu og sumir 5x5. Fyrir viðtakandann er næstum ómögulegt að lesa samfellt mál ef flytjandi talar um leið og oft er gott að láta hverja skjámynd bera sem fæst boð sem koma á til skila. Skipuleg framsetning er mikilvæg en líka myndir og uppbrot sem koma á óvart og kveikja áhuga. Kynningar má vinna með nemendum á öllum aldri en fara þarf yfir það með nemendum hvernig bestur árangur næst við hönnun og flutning. Sægur er af stuttum kennslumyndum á netinu sem kennarar geta nýtt sér og byggt á þegar þeir fara yfir þetta með nemendum sínum. Einnig er auðvelt að verða sér úti um skemmtileg kynningarforrit sem hlaða má ókeypis niður af netinu. Gömul og góð forrit geta líka þegar grannt er skoðað verið bæði lipur og öflug tól sem bjóða upp á ýmsa áhugaverða möguleika. Á vef bókarinnar er vísað á ýmis kynningarforrit, sem skólar geta nýtt, auk mynda um áhrifaríka hönnun og kynningar. Gagnvirk skjákynning
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=