Skapandi skóli

71 TÆKNI OG TJÁNING : SKAPANDI SKÓLI Þrep 2 Ritvinnsluforrit ásamt frekari tækni, myndvinnsluforriti, töflureikni, vafra og leitarvélum á netinu, er notað til að móta og bæta texta, búa til eða leita uppi og setja inn myndir, hanna myndrit til að styðja við textann og leggja inn tengla til frekari upplýsingar þar sem við á. Verkefnið er prentað út og vistað. Nemandi skilar kennara pappírseintaki eða stafrænu skjali og stundum hvoru tveggja. Þrep 3 Nemandi notar alla þá tækni sem býðst og skilar kennara til dæmis myndskreyttri skjákynningu, laglegum vef eða stafrænni bók sem býður upp á gagnvirkni og margmiðlun en ýmsar hugbúnaðar- og veflausnir má nota við slíka efnisgerð. Skjákynninguna, vefinn eða bókina er tæpast hægt að skoða að gagni nema á skjá eða tjaldi og sjaldnast er efnið prentað út. Borðtölvan, fartölvan, spjaldtölvan eða snjallsíminn hafa tekið við keflinu að fullu, gagnvirkur og margvíður texti frá nemandanum birtist í stafrænum búnaði og þangað er hann sóttur. Þrep 4 Nemandi nýtir alla miðlunarkosti líkt og áður en færir sér jafnframt í nyt ýmsar leiðir til stafrænna samskipta og samvinnu við ritun og skipulag efnis. Skjölum á vinnslustigi má deila með öðrum með samvinnuskrifum og sækja má upplýsingar, efniseiningar, tækniaðstoð, viðbrögð og uppörvun til félaga og vina á öllum stigum námsvinnunnar. Tækifæri til miðlunar Eins og fram hefur komið eru til ýmsar gerðir af hugbúnaði sem nota má með nemendum til að setja saman skjákynningar, vefi, bækur á stafrænu formi, hljóðupptökur og kvikmyndir og fyrir allar gerðir tölva, allt frá einföldum hugbúnaði sem hentar byrjendum yfir í flóknari kerfi fyrir lengra komna. Að búa til stafræna kynningu eða bók getur verið góð leið fyrir nemendur til að taka saman á einn stað það efni sem orðið hefur til við vinnu þeirra, ekki síst ef fjölbreytnin er mikil. Framboð á hugbúnaði til að setja saman bækur og kynningar með texta, hljóðum, gagnvirku efni og lifandi myndum er stöðugt að aukast og hægt að finna hugbúnað sem hentar nemendum á öllum skólastigum. Til þess að nemendur dragi sem mestan lærdóm af verkefnavinnu eins og þessari þarf þeim að vera ljóst að sú vinna sem þeir hafa lagt á sig á að skila sér til annarra og þeir þurfa að fá að kynnast sem fjölbreyttustum leiðum við að miðla þekkingu sinni þannig að aðrir njóti. Halda má munnlega og líflega kynningu með stuðningi af skjákynningu, setja fram líkön, útbúa vefsíður, fréttabréf og bæklinga eða búa til stutta kvikmynd, svo nokkur atriði séu nefnd. Hér verður stiklað á stóru um nokkrar leiðir sem nemendur geta farið þegar nýta á tæknina í verkefnaskilum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=