Skapandi skóli

69 TÆKNI OG TJÁNING : SKAPANDI SKÓLI Tækni og tjáning Upplýsingatækni og stafræn miðlun Upplýsingatækni og stafræn miðlun eru drifin áfram af örri tækniþróun og nýjungum. Ný tæki, nýjar hugmyndir og þróun á sviði stafrænnar tækni hafa skapað fjölmarga nýja möguleika í skólastarfi. Stafræn tæki og tól nýtast við margvíslega upplýsinga- og gagnaöflun, í samskiptum og tengslamyndun, við greiningu og úrvinnslu gagna, til skapandi verka og hvers konar miðlunar. Upplýsinga- og tæknimennt má vissulega telja afmarkað svið í skólastarfi í ákveðnu samhengi og vissum skilningi um skipulag námsgreina en upplýsingatækni og stafræn miðlun eru ekki síður þýðingarmikill hluti af flestum þáttum nútímaskólastarfs, þar með talið öllum námsgreinum eða greinasviðum grunnskóla hver sem þau kunna að vera. Erindi nýrrar tækni Nú er ekkert lögmál að ný tækni eigi alltaf við í námi og kennslu. Nauðsynlegt er að horfa á notkun tækninnar á gagnrýninn hátt. Til að fá sem mest út úr nýjum tækjum og tólum er mikilvægt að horfa ekki einungis á það sem þessi nýja tækni getur komið í staðinn fyrir eða leyst af hólmi heldur spyrja sig jafnframt að því hvað kunni að tapast og ekki síst hverju tæknin bæti við. Stundum erum við lengi að átta okkur á nýjum möguleikum fólgnum í nýrri tækni og stundum hættir okkur til að hefja hana umsvifalaust á stall. Í hugum sumra var borðtölvan lengi vel lítið annað en stafræn ritvél og í fyrstu þótti líka sumum sem spjaldtölvur væru helst til þess fallnar að geyma og birta lesefni á handhægan hátt. En þeir eru líka til sem hneigjast til að halda að með nýrri tækni verði allur vandi leystur innan skóla og utan og henni fylgi stórstígar framfarir í hverju skrefi. Ávinningur af notkun þessara tækja í skólastarfi hefur vissulega verið umtalsverður á mörgum sviðum en oft skortir mikið á að tæknin sé notuð á krefjandi og skapandi hátt. Ýmsir fylgifiskar tækninotkunar vekja líka áhyggjur og mikilvægt að gæta vel að þeim við uppeldi og skólastarf.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=