Skapandi skóli

4 Handbók þessari er ætlað að vera hagnýt uppspretta hugmynda um fjölbreytt og skapandi skólastarf fyrir kennara á öllum stigum grunnskólans. Í henni er að finna stutta umfjöllun um nokkrar kennsluaðferðir og ýmis verkefni sem auðvelt er að laga að mismunandi greinasviðum og aldurshópum nemenda. Þá er bent á ýmis verkfæri sem létt geta kennurum störf sín. Tækniþróun síðustu ára og áratuga skapar fjölbreytta möguleika til náms og kennslu og hefur orðið ákveðinn hvati að tilurð þessarar bókar. Nýrri tækni fylgja ekki endilega nýjar áherslur nema vinnuumhverfi og hugmyndir kennara bjóði upp á nýja kosti. Í bókinni er bent á fjölbreyttar leiðir til að nýta tæknina og á vef sem fylgir eru gögn og nánari útfærslur eftir því sem þurfa þykir, svo sem gátlistar, eyðublöð, hagnýtar krækjur og annað efni sem á að auka notagildi bókarinnar. Hugmyndafræðin að baki bókinni byggir að mestu á kenningum um félagslega hugsmíðahyggju (e. social constructivism). Við lítum svo á að einstaklingarnir sjálfir móti merkingu og þekkingu úr reynslu sinni og að félagsleg samskipti og samvinna hafi jákvæð áhrif á þá sköpun þekkingar og þar með námsárangur. Félagsleg hugsmíðahyggja á sér víða rætur en er oft rakin til rússneska sálfræðingsins Lev S. Vygotsky sem lést á fjórða áratug tuttugustu aldar og var ekki uppgötvaður af alvöru á Vestur- löndum fyrr en áratugum síðar. Flestir kannast svo við bandaríska heimspekinginn John Dewey sem vildi gera reynslu nemanda og áhrif að miðdepli menntunar og svissneska þróunarsálfræðinginn og heimspekinginn Jean Piaget sem setti fram kenningar um hugsmíðar með hliðsjón af þroska. Bandaríski sálfræðingurinn Jerome S. Bruner er líka oft nefndur í þessu sambandi og hafði mikil áhrif á hugmyndir skólafólks um tengsl hugsmíða og náms.1 Vygotsky setti meðal annars fram kenningar um svæði mögulegs þroska (e. zone of proximal development) sem er það svigrúm sem barni eða nemanda býðst til þroska með hæfilegum stuðningi af fyrirmyndum í umhverfi, samvinnu við lengra komna félaga eða leiðsögn fullorðinna.2 Hugmyndin um vinnupalla (e. scaffolds, scaffolding) sprettur úr þessum jarðvegi og snýst um hæfilegan stuðning af leiðsögn, leiðarvísum og fyrirmyndum í námi. Hlutverk kennara er þá að búa nemandanum það umhverfi og þá hvatningu sem þarf til að nemandinn geti byggt sína þekkingu af eigin rammleik, oft í samvinnu við aðra. Þó að fleiri komi að málum eru það kennararnir sjálfir sem gegna lykilhlutverki í skólastarfinu. Nú sem fyrr er það þeirra að skapa í skólanum frjótt vinnuumhverfi, vekja áhuga nemenda á viðfangsefnum og ýta undir að nám fari fram. Þá skiptir fagleg forysta og öflug teymisvinna miklu máli en eins og alltaf áður stendur skólastarfið og fellur með fagmennsku, viðhorfi og vinnugleði kennara. Margar hugmyndir og kennsluaðferðir sem finna má í bókinni eru líka löngu orðnar sígildar í skólastarfi í íslenskum grunnskólum og eru ekki nýjar af nálinni þó að þær hafi ratað á síður þessarar bókar. Sumar hafa alltaf átt sína fylgjendur og aðrar ganga nú í endurnýjun lífdaga, gjarnan í krafti tækniþróunar og nýrra möguleika í miðlun. Inngangur

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=