53 HLUTVERKALEIKIR OG RAUNTENGT NÁM : SKAPANDI SKÓLI Á miðstigi má til dæmis vinna í anda LARP með landnámið og landafundi, kristnitöku og siðaskipti, klausturlíf og heimilishald, sjómennsku og landbúnað, daglegt líf fyrr á tímum, stundum með ákveðna sögulega atburði sem verið er að læra um í huga. Einnig mætti færa sig nær nútímanum með því að setja sig í spor ferðafólks og heimamanna á framandi slóðum eða flóttafólks sem þarf að leita til annarra landa vegna pólitískra ofsókna, þjóðernisátaka, trúarskoðana eða kynhneigðar. Þá er skoðað í gegnum leikinn hvernig flóttamenn þurfa að laga sig að nýjum siðum og menningu og fella sitt fyrra líf og reynslu að því sem bíður þeirra í nýju landi. Forvinnan í slíkum spunaleik fælist fyrst og fremst í því að kynna sér aðstæður flóttafólks í ákveðnum löndum eða heimshlutum og með hvaða hætti það flýr frá heimahögum sínum. Auk þess mætti kynna sér hvað tekur við þegar flóttafólk kemur til Íslands. Leikurinn sjálfur byggir svo á þeim upplýsingum sem nemendur hafa aflað sér. Með því að nota hlutverkaleiki á borð við þessa næst annars konar innsýn í atburði og aðstæður. Nemendur lifa sig inn í leikinn og þurfa að beita allt annars konar vinnubrögðum við námið en þegar byggt er á námsbókunum einum. Fyrir nemendur á yngsta stigi er líklegt að hefðbundinn hlutverkaleikur án mikilla umsvifa, búninga eða undirbúnings henti betur. Fyrir unga nemendur er til dæmis upplagt að nýta slíka hlutverkaleiki í lífsleikni þegar unnið er með einelti eða önnur samskiptamál. Kennari les klípusögu fyrir nemendur og skiptir nemendum svo í hópa samkvæmt því sem sagan býður upp á. Síðan eiga nemendur að taka sér hlutverk þeirra sem í klípusögunni voru og leika atburðinn sem um var að ræða en líka koma með hugsanlegar lausnir á vandanum. Ekki er alltaf nauðsynlegt að hver hópur sýni sína útgáfu öllum hópnum en best er ef hægt er að ná upp umræðum eftir hlutverkaleikinn um líðan persónanna og þá úrvinnslu sem fram fór í leiknum.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=