Skapandi skóli

52 Hlutverkaleikir og rauntengt nám Rauntímaspunaleikur Rauntímaspunaleikur (e. live action role-playing game, LARP, sbr. larping og larper) er oft kallaður LARP og hefur notið vaxandi vinsælda. Þátttakendur taka sig saman um að leika og sviðsetja tiltekna lífshætti eða viðburði, stundum með áherslu á leik og stundum yfirbragð og leikræna tjáningu. Sem dæmi má nefna áhugafólk sem setur sig í stellingar víkinga og hefur til dæmis borið uppi Víkingahátíðina í Hafnarfirði en hún hefur verið haldin ár hvert frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar. Í rauntímaspunaleik tileinka nemendur sér þekktar persónur, til dæmis úr efni sem verið er að vinna með í bókmenntum og sögukennslu, og leika þá atburði sem fjallað er um. Hér væri upplagt fyrir samfélagsfræðikennara á unglingastigi að nýta sér sögusvið þeirra Íslendingasagna sem verið er að vinna með í skólanum, svo sem Brennu-Njálssögu og setja upp hlutverkaleik þar sem hver nemandi er í hlutverki ákveðinnar persónu, hvort heldur um er að ræða burðarpersónur eins og Gunnar á Hlíðarenda og Njál á Bergþórshvoli, Hallgerði langbrók og Bergþóru, eða vinnuhjú, börn og aðra sem við sögu gætu komið í þeim þáttum verksins sem teknir væru fyrir. Í svona vinnu er mikilvægt að nota búninga og aðra fylgihluti og jafnvel umhverfi, sem hjálpar nemendum sem best að lifa sig inn í söguna. Þannig væri uppsetning á Njálsbrennu, aðdraganda hennar og eftirleik, áhrifamest ef nemendum gæfist kostur á að vera úti í náttúrunni eða áhugaverðu manngerðu umhverfi á stað sem hentað gæti sem sögusvið brennunnar. Auk þess felst mikill lærdómur í því að skoða hvers konar fatnaður, amboð og vopn voru notuð á þeim tíma sem sagan gerist og útvega eða búa til eitthvað sem líkist því sem best áður en sjálfur leikurinn hefst. Gaman er að taka upp kvikmyndabrot af þeirri vinnu sem fram fer í aðdraganda sjálfs spunaleiksins, jafnvel ræða við valda þátttakendur og taka upp leikinn sjálfan svo hópurinn geti rifjað upp undirbúning að leiknum, horft á leikinn og farið yfir reynsluna af honum að leik loknum. Það fer eftir ýmsu hversu vel spunaleikur sem þessi hentar mismunandi greinasviðum og aldursstigum en óhætt er að segja að skemmtilegt og lærdómsríkt er að vinna með ýmsa námsþætti í lífsleikni, landafræði og sögu á þennan hátt. Vinna mætti með íslensku eða erlend tungumál, textílmennt og smíði, myndmennt, tónlist, íþróttir, dans og jafnvel matargerð allt eftir áherslum og viðfangsefnum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=