Skapandi skóli

41 ÞEMU, SÖGURAMMAR, SAMVINNA OG LEIT : SKAPANDI SKÓLI Púslhópavinnu er hægt að nota í stuttum og lengri vinnulotum allt eftir uppleggi og viðfangsefnum. Ef um lengra verkefni er að ræða þarf að gæta þess að hópar og hlutverkaskipting haldi sér allan tímann sem unnið er að viðfangsefninu. Nemendur venjast fljótt þessum vinnubrögðum og vita að hverju þeir ganga þegar ný verkefni eru lögð fyrir með þessum hætti. Hér er það samvinna allra í hópnum sem skiptir máli því þegar upp er staðið þurfa allir að búa yfir nægilegri þekkingu á öllum efnisþáttum til að geta greint munnlega frá niðurstöðum, skilað skriflegum verkefnum, tekið próf eða sýnt fram á þekkingu sína, í þessu tilviki á sögu Vesturfaranna. Púslaðferðina er hægt að nota með nemendum á öllum aldursstigum og gildir hér það sem alltaf á við; miða þarf umfang og efni verkefnanna við þá færni sem hver hópur býr yfir eða ætlast er til að hann tileinki sér. Sjónarmið af því tagi ráða þyngd og lengd lestexta, þjálfun í heimildaleit þar sem það á við eða kostum við framsetningu þekkingarinnar. Nýta má púslaðferðina og aðrar aðferðir samvinnunáms á marga vegu og á vef bókarinnar er bent á ýmsar nánari upplýsingar um slíkt. Sjónarhorn Þessi samvinnunámsaðferð kallar á umræður. Hún þjálfar nemendur í að rökræða sín í milli og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Ekki er gert ráð fyrir að niðurstöður þurfi að leggja fram skriflega en auðvitað má skipuleggja vinnuna þannig að leggja þurfi fram skriflega punkta eða greinargerð og jafnvel vinna enn frekar með niðurstöðurnar. 1 Áður en verkefnið sjálft hefst hafa tvö til fjögur horn eða svæði kennslurýmisins, svokölluð sjónarhorn, verið merkt með spjöldum með áletrunum á borð við: Algjörlega sammála, Sammála, Ósammála og Mjög ósammála. 2 Kennarinn kemur með staðhæfingu um vel valið álitaefni. 3 Nemendur fá hljóðan umhugsunartíma til að taka afstöðu til staðhæfingarinnar (þrjár til sjö mínútur eftir úthaldi og þjálfun nemenda í svona vinnubrögðum). Mikilvægt er að engar samræður fari fram á þessum tíma. Þeir nemendur sem vilja geta punktað hjá sér hugleiðingar sínar varðandi efnið á meðan umhugsunartíminn varir. 4 Þegar umhugsunartíminn er liðinn gefur kennarinn merki og nemendur færa sig í það sjónarhorn sem sýnir best afstöðu þeirra til staðhæfingarinnar, að eigin mati.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=