38 Afraksturinn Oftast er unnið er með alla þættina myndrænt og afrakstur hengdur upp á veggi. Beita má fjölbreyttum vinnubrögðum og nota tússliti, vatnsliti, málningu, klippimyndir eða líkön úr pappamassa til að túlka persónur og sögusvið sem verða til. Ritunarvinna er einnig hengd upp, og þá valin verkefni. Ýmsar leiðir eru svo til að nýta nútímatækni við upplýsingaleit og miðlun ef út í það er farið. Mikilvægt er að beita fjölbreyttum vinnubrögðum og lausnum þegar kemur að þeirri enskukennslu sem fram fer innan rammans; vinna má með orðaþrautir og krossgátur, útbúa samstæðuspil með orðum og orðskýringum og búa til glósubók, svo dæmi séu nefnd. Söguramma er hægt að nýta í öllum greinum og fyrir allan aldur nemenda. Kennarar víða um land hafa síðustu áratugi búið til söguramma um fjölbreytt viðfangsefni og marga þeirra má nálgast á netinu. Samvinnunám Samvinnunám (e. cooperative learning) má líta á sem regnhlífarhugtak yfir nám og kennslu þar sem nemendur vinna á vandlega mótaðan og markvissan hátt að sínu viðfangsefni saman í hópum.20 Þessi vinnubrögð geta reynst heilladrjúg til að spyrna gegn einelti í skólum, efla samkennd meðal nemenda, og auka virðingu fyrir framlagi hvers og eins. Undir samvinnunám heyra margar aðferðir eða útfærslur, svo sem samvinnunám í fjölmenningarhópum (e. cooperative learning in multicultural groups, CLIM), lærum saman (e. learning together) og hóprannsókn (e. group investigation). Stundum er talað um samvirkni- eða samstarfsnám (e. collaborative learning) nátengt samvinnunámi í flestum þáttum. Á Íslandi heyrist líka minnst á tölvustutt samvinnunám (e. computer supported collaborative learning) þegar stuðst er við stafræna tækni í skólastarfi. Hér verður aðeins fjallað um þrjár aðferðir tengdar samvinnunámi, fyrst er púslaðferðin21 (e. jigsaw), stundum einnig kölluð sérfræðingaaðferðin, tekin til umfjöllunar, en síðan aðferðir sem hér hafa fengið á íslensku heitin sjónarhorn22 (e. four corners) og mottuleið23 (e. place mat). Þessar þrjár aðferðir þykja góð dæmi um ólíkar leiðir í samvinnunámi.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=