37 ÞEMU, SÖGURAMMAR, SAMVINNA OG LEIT : SKAPANDI SKÓLI Lykilspurningar Hér eru dæmi um lykilspurningar sem mætti hugsa sér í hverjum kafla söguramma í ensku um orðaforða tengdan daglegu lífi og störfum fólks. Að sjálfsögðu ber að leggja áherslu á að tala erlend mál þegar unnið er eftir söguramma þar sem þau eru í brennidepli og því væru allar spurningarnar bornar upp á ensku. 1. Hvað þarf að vera í bæ úti á landi svo að hann þjóni þörfum íbúanna? 2. Fólkið á bak við störfin. Hverjir eru þetta? 3. Hvernig lítur bærinn út? 4. Hvernig er dagur í lífi persónanna? 5. Ef þið ættuð að velja eitt atvik úr dagbók persónunnar ykkar til að leika, hvaða atvik myndi það vera? 6. Hvaða atburðir tengja og sameina fólk í svona bæ? 7. Hvað þarf að gera svo að halda megi hátíð? Um leið og lykilspurningum hefur verið svarað eða þær lagðar fram hefjast nemendur handa við að búa til sögupersónur, í þessu tilviki fólkið á bak við störfin í bænum úti á landi. Margir í þeim hópi tengjast í gegnum vinnu eða fjölskyldu. Allir þurfa að vinna einhvers staðar og smám saman eignast fólkið ákveðið líf sem snýst annars vegar um vinnustaðinn og hins vegar um heimili eða félagslíf. Hvert barn ákveður við hvað persóna þess á að starfa og býr til sína spjaldbrúðu eða dúkkulísu með hliðsjón af því. Einnig er hægt að láta nemendur draga heiti á persónu, kyn, aldur eða starf. Nemendur gefa annars persónunni nafn, segja frá því helsta í lífi hennar, svo sem aldri, starfsheiti, fjölskylduhögum og áhugamálum og afraksturinn er hengdur upp á vegg. Næst tæki svo við að útbúa vinnustaði og heimili ef fara á út í það og skrifa einhvers konar starfslýsingu fyrir hvern og einn. Að þessu loknu eru samdar frásagnir sem lýsa degi í lífi hverrar persónu og þá má láta eitthvað óvænt koma upp á til að krydda frásögnina. Því má svo fylgja eftir með leikþætti sem nemendur semja sjálfir og byggir á einhverju því sem fram er komið eða setur tengsl á milli persóna í alveg nýtt samhengi. Þarna gætu verið læknir, hjúkrunarfræðingur og sjúklingar sem hittast á sjúkrahúsi bæjarins og eiga einhver samskipti. Þá er komið að því að velja atburð til að leiða saman alla bæjarbúa og ljúka verkefninu. Ræða mætti hátíðarhöld af einhverju tagi og fá nemendum hlutverk við skipulagningu og framkvæmd þeirra. Ef hægt er koma því við er tilvalið að bjóða foreldrum að vera með á sjálfri hátíðinni.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=