Skapandi skóli

30 Þegar talað er um fjölbreytta kennsluhætti er vísað til margvíslegra kennslu- aðferða, skipulags af hálfu kennara og viðfangsefna nemenda.15 Oft er talað um hefðbundna kennsluhætti annars vegar og óhefðbundna, opna eða sveigjanlega kennsluhætti hins vegar og kemur þá upp í huga flestra reyndra kennara ákveðin mynd úr skólastarfinu; hefðbundnir kennsluhættir vísa í námsbókatengda vinnu þar sem nemendur sitja í sætum sínum og hlusta, eða fylla út vinnublöð og verkefnabækur, og kennarinn er uppi við töfluna að ræða kennsluefnið eða fylgjast með verkefnavinnunni. Þegar um sveigjanlega kennsluhætti er að ræða má sjá fyrir sér nemendur víðs vegar um kennslurýmið, jafnvel að fást við mismunandi viðfangsefni og kennara sem gengur á milli og aðstoðar þar sem þarf. Allt skipulag kann að virðast laust í reipunum og erfitt getur verið að koma auga á viðfangsefni kennslustundarinnar í fljótu bragði. Engu að síður grundvallast árangur af sveigjanlegum kennsluháttum á því að undir liggi gott skipulag. Viðfangsefnin þurfa að vera skýr og markmiðin ljós. Vinnuna má hins vegar nálgast á marga vegu og aðferðir geta tekið mið af þörfum, getu og áhuga einstaklinganna sem fást við viðfangsefnin. Hugtakið kennsluaðferð hefur stundum verið skilgreint sem „það skipulag sem kennarinn hefur á kennslu sinni, samskiptum við nemendur, viðfangs- efnum og námsefni í því skyni að nemendur læri það sem að er keppt“.16 Til eru margar tegundir þekktra aðferða við skipulag náms og kennslu og má sem dæmi nefna söguaðferðina, samvinnunám, leitarnám, lausnaleitarnám og landnámsaðferð. Allt eru þetta aðferðir og efnistök í kennslu þar sem tiltölulega skýrum og hnitmiðuðum vinnubrögðum er beitt og hægt er að fylgja nokkuð skýru ferli í gegnum þau verkefni sem lagt er upp með. Aftur á móti kjósa margir kennarar að beita sem fjölbreyttustum aðferðum og flétta þær saman, jafnvel í einni og sömu kennslustundinni. Í þessum kafla verður fjallað um nokkrar aðferðir sem kennarar geta beitt við kennslu sína. Aðferðirnar eru ólíkar innbyrðis en stuðla allar að samræðu og samvinnu meðal nemenda, gagnrýninni hugsun og skapandi vinnubrögðum. Nefnd eru dæmi um viðfangsefni en hafa ber í huga að aðferðunum er öllum hægt að beita í glímu við nánast öll viðfangsefni á öllum skólastigum. Aðeins þarf að laga viðfangsefni og aðferð að þeim áherslum og því aldursstigi sem ætlunin er að vinna með hverju sinni. Þemu, sögurammar, samvinna og leit

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=