Skapandi skóli

24 Hugarkort Hugarkort er mynd eða kort sem sýnir tengsl hugtaka og hugmynda. Oftast er eitt meginþema eða hugtak í miðju kortsins. Nemendur nota hugarkort til að koma skipulagi á og skrá niður eigin þekkingu og hugmyndir. Gott hugarkort endurspeglar hugmyndir um flokkun, skipulag, skilgreiningar og margháttuð tengsl atriða og hugtaka. Hugarkort má til að mynda nota þegar kanna á forþekkingu nemenda, varpa ljósi á hugtök, leggja upp kafla í ritgerð, skrá fundargerð, skipuleggja verk eða viðburði, glósa, rifja upp og skrá niður hugmyndir í þankahríð. Hugarkort er hægt að nota með öllum aldurshópum og við hvers konar viðfangsefni. Kennari getur gefið nemendum nokkur stikkorð eða látið þá sjá um að skilgreina þau. Kortið á að sýna tengingar milli flokka og atriða. Jafnvel má skýra tengsl með útskýringum á greinum eða tengslalínum. Hugarkort eru sjónræn og mega gjarnan vera litrík og myndræn. Nemendur geta teiknað inn eða fært inn myndir þar sem það á við og fest með því atriði kortsins í minni. Handgert hugarkort veitir nemandanum mikið frelsi til sköpunar en ýmis hugbúnaður og veftól geta auðveldað gerð hugarkorta. Finna má alls konar hugbúnað til hugarkortasmíða eins og VUE, Prezi, Coggle og Inspiration. Einnig má setja upp hugarkort í Powerpoint og margir kennarar hafa lært á forritið MindManager. Nánar er fjallað um hugarkortasmíð á vef bókarinnar.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=