16 Hlutverkaskipting og ábyrgð í hópavinnu Stundum eru verkefni hópa einföld eða liggja ljós fyrir og þá geta fyrirmæli kennara til þeirra einfaldlega verið þau að hefjast handa. Nemendur eiga oftast að hjálpast að og oft tekur einn að sér að skrifa niður svör, úrlausnir eða niðurstöður. Einnig má sammælast um að skiptast á. Þetta gengur oft prýðilega og ef hópurinn er ekki of stór má gera ráð fyrir að nemendur leggi allir sitt af mörkum. Við aðstæður þar sem samvinnunni sjálfri er ætlað að skipa stóran sess og verkefnin ná yfir lengri tíma en eina eða tvær kennslustundir er þó oft gott að hver og einn nemandi í hópi hafi skýrt skilgreint hlutverk þótt allir séu að vinna að sama verkefni. Þannig getur einn verið ritari, annar tímavörður, þriðji séð um að sækja gögn og efni (þann mætti kalla aflakló eða safnara) sé þess þörf og fjórði gegnt hlutverki stjórnanda sem heldur utan um vinnuna og skipuleggur jafnvel hverjir gera hvað umfram skilgreind hlutverk. Að sjálfsögðu vinna allir saman að sjálfu verkefninu en með því að skilgreina hlutverk og skipta verkum á þennan hátt eykst tilfinning nemenda fyrir ábyrgð sinni á gangi verkefnisins. Þegar verkefnið spannar margar kennslustundir yfir nokkurra daga tímabil þarf helst að gæta þess að hópmeðlimir fái allir tækifæri til að spreyta sig á öllum hlutverkum. Sá sem var tímavörður í fyrsta tímanum, gæti orðið ritari í næsta tíma og þar fram eftir götum. Til þess að hlutverkin séu vel sýnileg er gott að skrifa þau á spjöld og hengja um háls nemenda, næla með nafnspjaldanælu í barminn eða hafa á borðinu fyrir framan vinnusvæði hvers og eins. Eins er gott að setja nemendahópana upp í töflu þannig að hlutverkin séu sýnileg öllum og sjá megi skipulagið fram í tímann. Þegar skipt er í hópa með hlutverkaskipan sem þessa í fyrsta skipti þarf að gæta þess að nemendur valdi hlutverkunum. Þannig mætti velja nemanda sem hefur góða skipulagshæfileika í hlutverk stjórnanda í fyrsta tíma. Ekki þarf að handvelja nemendur í hlutverk eftir það enda eiga hlutverkin að vera áskorun fyrir nemendur. 1. tími 2. tími 3. tími 4. tími Anna Stjórnandi Tímavörður Ritari Aflakló Guðmundur Aflakló Stjórnandi Tímavörður Ritari Andri Ritari Aflakló Stjórnandi Tímavörður Ólöf Tímavörður Ritari Aflakló Stjórnandi
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=