Skapandi skóli

12 Önnur útfærsla Nota má minnismiða með límrönd í þetta verkefni. Þá skrifa nemendur á hvern miða eitt atriði sem þeir telja sig kunna varðandi viðfangsefnið eða myndu vilja vita og hengja svo upp á svæði merkt K og V. Svo má láta nemendur flokka miðana eftir efnislegum tengslum. Við verkefnislok skrifa nemendur svo á miða það sem þeir hafa lært og hengja upp á svæði merkt L. Örfundir Örfundir nefnist umræðuaðferð þar sem nemendahópar taka allir fyrir sama efni en koma sér saman, hver hópur fyrir sig, um spurningu sem hópinn langar að fá svör við. Að því búnu fara allir um stofuna og ræða við aðra nemendur og skiptast á upplýsingum um efnið. Dæmi um svona örfundi gæti verið úr kennslustund um hafið. Eftir kveikju eða innlögn kennarans og skiptingu í þriggja manna hópa á hver hópur að koma sér saman um eitt atriði sem allir í hópnum myndu vilja vita um hafið. Mikilvægt er að spurningarnar sem bornar eru upp séu tiltölulega opnar og bjóði upp á vangaveltur og leit. Spurningarnar sem út úr þessu koma gætu verið um hvað sem er sem tengist hafinu. – Hve djúpur er sjórinn þar sem hann er dýpstur í heiminum? Hvar lifa sæhestar? Hvers konar sjávardýr er líklegt að finna niðri við hafsbotninn? Hversu langan tíma tekur að synda yfir Ermarsund? Hvaða munur er á sæljónum og rostungum? Hver eru helstu heimshöfin? – Nemendur fá vissan tíma, allt að sjö mínútum, til að ganga á milli og spyrja hver annan sinnar spurningar og skrá niður þau svör sem þeir fá. Að loknum þessum tíma eiga hóparnir að hittast aftur og fá stutta stund til að bera saman svörin sem tókst að afla. Í lokin fer kennarinn yfir spurningarnar og svörin með hópunum og skráir eftir atvikum athyglisverðar niðurstöður.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=