10 Könnun forþekkingar Þekking nemenda á þeim viðfangsefnum sem ætlunin er að vinna með er oft umtalsverð og henni þarf að gefa vægi. Í nemendamiðuðu námi er gengið út frá því að nemandinn taki þátt í vali á viðfangsefnum og aðferðum. Nemendur ættu að íhuga forþekkingu sína, skrá hana hjá sér og skrá ennfremur hvað þá langar að vita og hvað þeir hafa lært í lok vinnunnar. Við þetta eykst tilfinning nemenda fyrir hlutdeild og ábyrgð á eigin námi. Dæmi um verkefni sem tekur mið af forþekkingu nemenda mætti taka úr líffræðikennslu þar sem dýr, meðferð dýra og ýmiss konar dýraafurðir eru til umfjöllunar og athugunar. Fyrirfram skilgreindir nemendahópar koma sér þá saman um hvaða dýraafurðir þá langar að vita meira um (mjólkurvörur, ull, leður, pylsur …), skrifa niður það sem þeir vita um efnið og móta svo ákveðnar lykilspurningar til að beita við frekari þekkingarleit. – Hvert er dýrið? Hver er afurðin? Hvernig er hennar aflað og hvernig er hún unnin? Hvernig er farið með dýrin í því ferli? – Kennarinn getur komið með kveikju með því að benda á vörutegundir þar sem dýraafurðir koma við sögu án þess að nemendur hafi gert sér það ljóst. Matarlím er til að mynda unnið er úr beinum, kjötafgöngum og dýrafitu og notað í sælgætishlaup. Einnig er hægt að snúa þekkingarleitinni og lykilspurningum í öfuga átt og beina athyglinni að þeirri vörutegund sem ætlunin er að fræðast um. – Hvað er beikon? Úr hverju er lyftiduft búið til? Hvernig verður plastpoki til? Úr hverju er handsápa? – Leita má upplýsinga um framleiðsluferlið og í sumum tilvikum kemur í ljós að dýraafurðir koma við sögu. Hægt er að fara margar leiðir í þessu ferli en hér verður fjallað um þrjár aðferðir sem reynst hafa vel við alls konar viðfangsefni og hægt er að laga að öllum stigum grunnskólans. KVL Skammstöfunin KVL eða K-V-L stendur fyrir þrjá dálka á blaði sem bera heitin: Kann, Vil vita og Hef lært (e. Know, Want to know, Learned).5 Nemendur skrá í fyrsta dálkinn allt sem þeir telja sig „kunna“ nú þegar um efnið og í miðdálkinn skrá þeir atriði sem þeir myndu vilja bæta við þá þekkingu. Þegar verkefninu er lokið, hvort sem verkefnið tekur stutta stund, örfáar kennslustundir eða lengri tíma, skrá nemendur svo í þriðja dálkinn hvað þeir hafa lært um viðfangsefnið. Seinna má skoða töfluna og ræða við nemendur hvað þeir hafi lært, hvort það varpi nýju ljósi á þekkinguna sem þeir bjuggu yfir áður og hvort þeir hafi lært um það sem þá langaði að kynna sér. Taflan hjálpar nemendum að greina eigin framfarir.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=