8 Úr verkfærakistu kennarans Störf kennarans eru í sífelldri þróun. Engin ein kennsluaðferð uppfyllir allt sem þarf til þess að nám fari fram í öllum nemendahópnum. Beita þarf fjölbreyttum aðferðum og leita jafnvægis milli kennaramiðaðrar og nemendamiðaðrar kennslu. Kennaramiðuð kennsla er sú kennsla sem kennarinn skipuleggur í þaula án aðkomu nemenda. Í henni geta þó falist fjölbreytt verkefni og árangursrík. Ókosturinn við kennaramiðaða kennslu er sá helstur að aðkoma nemenda að skipulagi er í lágmarki og svo vill brenna við að kennarinn sjálfur gegni aðalhlutverki í kennslustundum. Þá getur verið talsverð áskorun fyrir kennarann að viðhalda athygli og að sjá til þess að allir nemendur taki virkan þátt í eigin námi. Í nemendamiðaðri kennslu er nemandinn hafður með í ráðum þegar vinnan er skipulögð. Áhersla er lögð á ábyrgð nemenda á eigin námi og áhuga á því sem við er að glíma. Markmiðið er að þeir skapi og þrói með sér þekkingu í samstarfi við kennarann og samnemendur sína. Um leið og nemandi finnur að mark er tekið á því sem hann hefur fram að færa vaknar áhugi og jákvæðni gagnvart náminu eykst. Í nemendamiðaðri kennslu er kennarinn ekki aðeins sérfræðingur í námsefninu heldur ekki síður sérfræðingur í að mæta þörfum nemenda og fá þeim heppileg verkfæri til nota við námið. Í stað þess að mata nemendur á staðreyndum eða sjónarmiðum og kenna þeim rétt svör reynir hann að finna nýjar hliðar á viðfangsefninu, tengja það áhuga nemenda og hjálpa þannig nemandanum að skapa sér nýja þekkingu og ný tækifæri í námsferlinu. Kennarinn er þá orðinn leiðtogi og verkstjóri (e. facilitator) og aðalhlutverk hans verður að kveikja með nemendum innri hvöt til að afla sér þekkingar. Nemendamiðuð kennsla Kennarinn sem leiðtogi • leggur áherslu á námsferlið sjálft • hjálpar nemendum og útvegar þeim verkfæri þannig að þeir geti sjálfir fundið svör • fer oft út fyrir efnið • þarf að vera skapandi og spinna kennsluna á staðnum 4 Kennaramiðuð kennsla Kennarinn sem sérfræðingur • leggur áherslu á þekkingu og efnistök • veitir nemendum svör • vinnur með þekktar staðreyndir • einbeitir sér að einu viðfangsefni • hefur fulla stjórn á aðstæðum
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=