Brennu-Njáls saga II

49 Valgerður heyrði þetta og mælti: „Tröll hafi þitt hól og skrum.“ Hún varaði Kára við að treysta á harðræði bónda síns. Björn mælti: „Oft hefir þú veitt mér ámæli en ég treysti mér svo vel að ég mun fyrir engum manni á hæl hopa. Raunin er að fáir ráðast á mig því engir þora.“ Kári var um skeið á laun í Mörk. Dag einn komst Björn á snoðir um ferðir Sigfússona og bað Kári hann þá að ríða með sér og sitja fyrir þeim. Björn mælti: „Þetta er mikil hættuför og munu fáir þora nema þú og ég.“ Valgerður mælti: „Ef þú fylgir Kára illa þá skalt þú það vita að aldrei skalt þú koma í mína rekkju síðan.“ „Það er líkara húsfreyja,“ segir Björn, „að fyrir öðru þurfi ráð að gera en skilnaði okkar því að ég mun sýna hvaða garpur eða afreksmaður ég er í vopnaskiptum.“ Kári og Björn riðu að Skaftá og voru þar á njósn. Kári bar undir Björn hvað þeir skyldu gera ef Sigfússynir riðu þar ofan af fjallinu. Björn svaraði ýmist að hann vildi flýja sem harðast eða bíða og berjast. Margt töluðu þeir um þetta og þótti Kára að þessu allmikið gaman.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=