Brennu-Njáls saga II

Skarphéðinn kom fótum undir sig og reyndi í annað sinn að hlaupa upp vegginn en þá féll yfir hann þakásinn og hrasaði hann inn aftur. Hann mælti þá: „Séð er nú hvað verða vill.“ Gunnar Lambason hljóp upp á vegginn og mælti: „Grætur þú nú Skarphéðinn?“ „Ekki er það,“ segir Skarphéðinn, „en hitt er satt að súrnar í augunum. En er það satt sem mér sýnist, hlærð þú?“ „Svo er víst,“ segir Gunnar, „og hef ég aldrei fyrr hlegið síðan þú vóst Þráin á Markarfljóti.“ Skarphéðinn mælti: „Þá er hér nú minjagripur.“ Hann tók jaxl úr pússi sínu er hann hafði höggvið úr Þráni og kastaði til Gunnars og kom í augað svo að þegar lá úti á kinninni. Féll Gunnar þá ofan af þekjunni. Skarphéðinn gekk til Gríms bróður síns og héldust þeir í hendur og tróðu eldinn. En er þeir komu í miðjan skálann féll Grímur dauður niður. Skarphéðinn gekk til enda hússins. Þá varð brestur mikill og öll þekjan féll niður. Klemmdist Skarphéðinn þar fastur og mátti sig hvergi hræra. Þeir Flosi voru við eldana langt fram á morgun. Þá kom þar maður einn ríðandi. „Þið hafið unnið mikið stórvirki,“ segir hann. 41

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=