Markviss málörvun

6 FORMÁLI Hugmyndafræði Hér verður fjallað stuttlega um þann hugmyndafræðilega grunn sem áætlunin Markviss málörvun er byggð á. Lengi hafa menn velt fyrir sér hvað liggur að baki lestrarferli og þróun lestrar hjá einstaklingnum. Fjölmargar skoðanir og tilgátur hafa verið settar fram í því efni, enda er ekki um einfalt mál að ræða. Einnig er ljóst að fjölmargir ytri þættir hafa áhrif á gengi barna í lestrarnámi, svo sem reynsla barnsins, þekking þess og umhverfi, svo að ekki sé minnst á skólaaðstæður og kennslu. Á síðasta aldarfjórðungi hafa rannsóknir veitt nýja innsýn í ýmsa þætti sem hafa áhrif á lestrarnám. Einkum hefur athygli beinst að tengslum máls og lestrar. Upphaf þessara rannsókna hefur verið kennt við Isabelle Liberman sem sýndi með rannsóknum (1971 og 1973) fram á að forsenda lestrarnáms er að barnið geri sér grein fyrir því að málið greinist í smærri þætti sem setja má fram í prentuðu formi, þ.e. tengsl talaðs og skrifaðs hljóðs (Blachman, 1997). Síðan hafa fjölmargar rannsóknir, bæði vestan hafs og austan, sýnt fram á mikilvægi hljóðkerfisvitundar (phonological awareness) og hljóðgreiningar­ færni í lestrarnámi, eins og eftirfarandi tilvitnun gefur til kynna: „… uppgötvun hinna sterku tengsla milli hljóðkerfisvitundar barna og lestrarnámsins er einn af stórsigrum í nútímasálarfræði“ (Bryant og Goswami, 1987). Sigurinn sem átt er við í þessari tilvitnun vísar til hins mikla stöðugleika og fylgni í niðurstöðum rannsókna í þessu efni og mun hér drepið á nokkrar slíkar. Sýnt hefur verið fram á að börn sem hafa styrka hljóðkerfisvitund eiga auðveldara með að læra að lesa, til dæmis með rannsókn Bradley & Bryant í Bretlandi 1978 og 1985. Þessar rannsóknir sýndu jafnframt að hljóðkerfisvitund barna áður en skólaganga hefst segir fyrir um gengi þeirra í lestrarnámi og að þjálfun hljóðrænnar skynjunar getur auð­ veldað börnum að læra að lesa. Einnig hafa rannsóknir á einstaklingum með sértæka lesröskun (dyslexics) sýnt að erfiðleikar við hljóðgreiningu eru þeim sameiginlegir. Hér er um að ræða erfiðleika bæði við að greina orð í stök hljóð og að nema burtu hljóð úr orðum (m.a. Shaywitz, 1994). Hljóðkerfisvitund er skilgreind sem næmi eða vitund einstaklingsins fyrir hljóðrænni uppbyggingu orða í móðurmáli hans. Þetta má greina með því að leggja fyrir verkefni þar sem finna skal hljóð í orðum, aðgreina þau eða bæta hljóðum inn í orð. Til þjálfunar eru í byrjun notuð ýmis viðfangsefni, t.d. rím eða stuðlun (stuðlasetning). Síðar eru lögð fyrir erfiðari verkefni, svo sem aðgreining hljóða í orði, í byrjun fyrsta hljóð í orði en síðar að finna hvernig orð breytist með því að nema burtu hljóð innan úr því, svo sem að taka r úr orðinu gráta sem þá verður gáta og taka l úr orðinu blað, verður bað. Lengi var deilt um hvort velgengni í lestrarnámi byggðist á hljóðgreiningarfærni eða hvort hljóðgreiningin byggðist á þeirri lestrarfærni sem barnið hefði þegar öðlast, og töldu ýmsir að það væri lesturinn sem hefði áhrif á hljóðgreininguna. Nú er talið að það sé fyrst og fremst hljóðgreiningin sem hafi áhrif á lestur. Verður síðar vikið að rannsókn Lundbergs o. fl. á þessu atriði.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=