Markviss málörvun

12 Forhljóð Þegar hér er komið í Markvissri málörvun hefur málathyglin þegar verið þjálfuð með hlustunar- og rímleikjum og börnin hafa lært um smærri einingar málsins, setningar, orð og samstöfur. Nú er komið að heyrnrænni greiningu málhljóða. Fyrsta stig hljóðgreiningar er að finna forhljóð, fyrsta hljóð í orði. Það má gera á ýmsan hátt, til dæmis með því að taka burtu fremsta hljóð eða bæta hljóði framan við orð. Hér er gott að skoða aftur rím og þulur og finna nú fyrsta hljóðið í vísuorðunum (hendingunum). Einnig eru nöfn barnanna góð leið til þjálfunar og alltaf vinsæl. Hér þarf leikgleðin enn að vera í fyrirrúmi. Setja má fram fyndnar setningar þar sem öll orðin í setningunni byrja á sama hljóði (Fimm feitir fílar fluttu til Fríðu frænku o.s.frv.). Þegar öryggi eykst má nota flóknari æfingar, svo sem að segja setningu þar sem fyrsta hljóð í orði fellur út (-jáðu -ætu -telpurnar -em -itja -aman og eru að -auma). Börnin finna hvaða (sama) hljóð fór framan af orð­ unum. Líma má á spjald myndir af hlutum með heiti sem byrjar á sama hljóði (hér má einnig nota Málhljóðaspilið). Mikilvægt er að börnin hafi náð öryggi í að finna forhljóðin áður en byrjað er á næsta þætti áætlunarinnar, hljóðgreiningu orða, og er þetta í raun fyrsta stig hljóðgreiningar. Hér skilur oft mjög á milli barnanna í bekknum. Mörg börnin hafa heyrnræna hljóðgreiningu orða á valdi sínu en önnur ekki. Æskilegt er að hægt sé að skipta börnunum í a.m.k. tvo mismunandi hópa. Þá er hægt að endurtaka eftir þörfum og æfa betur þá þætti sem ekki hafa enn náðst en leyfa þeim börnum sem náð hafa þessu mikilvæga stigi að halda áfram á sínum eigin forsendum. Hljóðgreining Hljóðgreining, þ.e. greining einstakra hljóða í orði, er viðkvæmasti en um leið mikilvægasti þáttur hljóðrænnar þjálfunar, enda hefur samkvæmt fyrrgreindum rannsóknum verið sýnt fram á að hæfni til hljóðgreiningar er forsenda lestrarnáms. Þegar börnin hafa forhljóðin á valdi sínu má fara að skipta orðunum í einstök hljóð (í-s, f-a-r-a) og er unnið að sundurgreiningu og samtengingu hljóða. Notuð eru spjöld með myndum og byrjað á tveggja hljóða orðum en síðan þriggja hljóða. Fara ætti hægt og leggja áherslu á (ýkja) framburð einstakra hljóða í orðunum. Kubbar eru notaðir sem sjónræn styrking til að afmarka ein­ stök hljóð. Hér er lagður grunnur að skilningi barnanna á tengslum hljóðs og bókstafs.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=