91 Nú var Bolli einn í selinu. Hann tók vopn sín, setti hjálm á höfuð sér og hafði skjöld fyrir sér og sverðið Fótbít í hendi. Enga hafði hann brynju. Þeir Halldór ræða nú um hvernig eigi að sækja, því að enginn var fús að ganga í selið. Þá mælti Án hrísmagi: „Eru þeir menn hér á ferð er Kjartani eru skyldari að frændsemi en ég. En engum mun minnisstæðari en mér sá atburður er Kjartan lést. Mun ég fyrstur ganga inn í selið.“ Síðan gekk Án inn í selið og hafði skjöldinn yfir höfði sér. Bolli hjó til hans með sverðinu Fótbít í gegnum skjöldinn og klauf Án í herðar niður. Fékk hann þegar bana. Þá gekk Lambi inn. Í sama bili kippti Bolli Fótbít úr sárinu og hafði þá ekki skjöldinn fyrir sér. Þá lagði Lambi í lær Bolla og varð það mikið sár. Bolli hjó í móti á öxl Lamba og renndi sverðið niður með síðunni. Hann varð þegar óvígur. Í þessari svipan gekk inn Helgi Harðbeinsson og hafði í hendi mikið spjót með járnvöfðu skafti. Þegar Bolli sér það kastar hann sverðinu en tók skjöldinn báðum höndum og gekk fram að selsdyrunum í móti Helga. Helgi lagði til Bolla í gegnum skjöldinn og hann sjálfan. Bolli hallaðist upp að selsveggnum. Nú þustu menn inn í selið. Þá mælti Bolli: „Það er nú ráð, bræður, að ganga nær en hér til,“ sagðist búast við að nú yrði skömm vörn. Þorgerður svaraði og bað þá að ganga milli bols og höfuðs á Bolla. Bolli stóð enn upp við vegginn og hélt að sér kyrtlinum til þess að iðrin hlypu ekki út. Þá hljóp Steinþór Ólafsson að Bolla og hjó til hans með öxi á hálsinn og gekk þegar af höfuðið.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=