90 skyldu fara, því að hún þekkti syni sína, að þeim veitti ekki af brýningu. Þeir sögðu að hún skyldi þá ráða. Eftir það ríða þau heiman úr Hjarðarholti, tíu saman. Þau komu í Sælingsdal snemma morguns. Skógur var þykkur í dalnum í þann tíð. Þau stigu af baki í skóginum, ekki langt frá selinu og biðu þess að húskarlar Bolla færu út til heyverka. Smalamaður Bolla fór að fé snemma um morguninn uppi í hlíðinni. Hann sá menn og hross í skóginum og grunaði að þetta mundu ekki vera friðmenn, sem fóru svo leynilega. Hann stefndi þegar heim til selsins og ætlaði að segja Bolla. En Halldór sá að maður hleypur ofan hlíðina og stefnir til selsins. Hann segir förunautum sínum að það muni vera smalamaður Bolla, og hafi hann séð til þeirra. Þeir fara nú í móti smalamanninum og varð Án hrísmagi fljótastur. Hann náði smalamanninum og keyrir hann niður, svo að hryggurinn brotnaði í sundur. Síðan riðu þau að selinu. Bolli hafði verið snemma á fótum um morguninn og skipað húskörlum sínum til vinnu, en lagst til svefns aftur þegar húskarlarnir voru farnir. Þau voru tvö ein í selinu, Bolli og Guðrún. Þau vöknuðu þegar komumenn hlupu af baki og heyrðu þau að þeir ræddu um hver skyldi fyrstur ganga inn í selið til Bolla. Bolli þekkti rödd Halldórs og fleiri þeirra förunauta. Hann bað Guðrúnu að ganga burt úr selinu, sagði að þar mundi ekkert gerast sem henni þætti gaman að. Hún sagði að ekkert mundi gerast sem hún gæti ekki horft á og mundi Bolla ekki verða mein að sér þó að hún væri hjá honum. Bolli sagðist vilja ráða þessu. Gekk þá Guðrún ofan fyrir brekkuna, niður að læk sem þar féll og tók að þvo léreft sín.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=