87 26. Hefndarhvöt Þorgerðar Veturinn eftir lát Ólafs Höskuldssonar sendi Þorgerður húsfreyja Steinþóri syni sínum orð og bað hann að koma og hitta sig. Hann bjó á Dönustöðum í Laxárdal. Þegar hann kom að Hjarðarholti sagði Þorgerður sonum sínum að hún vildi fara vestur til Saurbæjar að hitta Auði vinkonu sína á Hóli. Þeir fóru báðir með henni, Halldór og Steinþór, og tveir menn aðrir. Fara þau nú þangað til þau koma á móts við bæinn í Sælingsdalstungu. Þá sneri Þorgerður hestinum upp að bænum og spurði: „Hvað heitir bær þessi?“ Halldór sonur hennar svarar: „Þess spyrð þú eigi af því, móðir, að þú vitir eigi. Þessi bær heitir í Tungu.“ „Hver býr hér?“ segir hún. Hann svarar: „Veistu það, móðir.“ Þá segir Þorgerður og blés við: „Veit ég að vísu,“ segir hún, „að hér býr Bolli, bróðurbani ykkar. Og furðu ólíkir eruð þið frændum ykkar, er þið viljið eigi hefna þvílíks manns sem Kjartan var. Og eigi mundi svo gera Egill, móðurfaðir ykkar. Og er illt að eiga dáðlausa syni. Og væruð þið betur fallnir til að vera dætur föður ykkar og væruð giftar. Nú skulum við aftur snúa og var þetta erindi mitt að minna ykkur á þetta, ef þið mynduð það eigi áður.“ Halldór svarar og segist ekki munu kenna móður sinni um það þótt sér liði úr hug víg Kjartans.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=