Laxdæla saga

73 21. För Kjartans að Laugum Eftir jól um veturinn safnaði Kjartan að sér sextíu mönnum. Ekki sagði hann föður sínum hvert hann ætlaði og spurði Ólafur hann ekki um það. Kjartan hafði með sér tjöld og vistir. Ríður Kjartan nú leið sína þar til er hann kemur til Lauga. Hann biður menn sína að stíga af baki. Suma bað hann að gæta hesta þeirra, aðra að reisa tjöld. Í þann tíma var það venja að salerni væru í sérstökum húsum og ekki innangengt í þau úr bæjarhúsum og þannig var á Laugum. Kjartan lét loka öllum dyrum á bæjarhúsunum og bannaði öllum mönnum útgöngu og stóð svo í þrjá sólarhringa. Eftir það ríður Kjartan heim í Hjarðarholt og förunautar hans hver til síns heimilis. Ólafur lét illa yfir þessari ferð. En Þorgerður sagði að Laugamenn hefðu unnið til þessarar svívirðingar eða meiri. Þá mælti Hrefna: „Áttir þú, Kjartan, við nokkra menn tal á Laugum?“ „Lítið var bragð að því,“ svaraði Kjartan, og sagðist þó hafa skipst á nokkrum orðum við Bolla. Þá mælti Hrefna og brosti við: „Það er mér sannlega sagt að þið Guðrún munið hafa talast við. Og svo hef ég spurt hvernig hún var búin, að hún hefði nú faldað sig motrinum og færi hann henni einkar vel.“ Kjartan svarar og roðnar við: „Ekki bar mér það fyrir augu er þú segir frá, Hrefna,“ segir Kjartan. „Mundi Guðrún ekki þurfa að falda sér motri til að vera glæsilegri en allar aðrar konur.“ Þá hætti Hrefna þessu tali.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=