64 18. Haustboð á Laugum Guðrún Ósvífursdóttir frétti að Kjartan væri kominn heim og sagði við Bolla að hann hefði ekki sagt sér allt satt um hann. Bolli sagðist hafa sagt henni það sem hann vissi sannast. Guðrún svaraði því fáu og fundu menn að henni líkaði illa og ætluðu flestir að hún sæi mikið eftir Kjartani. Ólafur í Hjarðarholti og Ósvífur á Laugum voru vanir að skiptast á um að halda haustboð hvor fyrir annan. Þetta haust átti Ósvífur að halda boðið. Ólafur bjóst að heiman og bað Kjartan að fara með sér. Kjartan sagðist ætla að vera heima og gæta bús. En Ólafur lagði að honum að fara, sagði að þeir frændur mundu brátt sættast ef þeir hittust. Kjartan lætur undan föður sínum og býst til ferðar. Hann tekur upp rauð skarlatsklæði sem Ólafur konungur hafði gefið honum, gyrti sig sverðinu frá konungi, hafði gullroðinn hjálm á höfði og rauðan skjöld með krossmarki á. Allir voru menn hans í litklæðum, yfir tuttugu saman. Bolli gekk á móti þeim Ólafi og fagnaði þeim vel. Hann gekk til Kjartans og kyssti hann. Kjartan tók undir kveðju hans. Eftir það var þeim fylgt inn. Bolli var hinn kátasti og tók Ólafur því vel en Kjartan var fálátur. Bolli átti fjögur afburða góð hross, hvítan stóðhest með rauðum eyrum og toppi og þrjár hryssur í sama lit. Eftir veisluna vildi Bolli gefa Kjartani hrossin. En Kjartan sagðist ekki vera neinn hestamaður og vildi ekki þiggja hrossin. Ólafur bað hann taka við hrossunum, þau væru hinar virðulegustu gjafir. En Kjartan setti þvert nei fyrir. Skildust þeir eftir það með engri blíðu og riðu Hjarðhyltingar heim.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=