Laxdæla saga

58 Nokkru síðar kom Bolli að máli við Ólaf páa frænda sinn og sagðist vilja biðja sér konu. Ólafur sagði að flestum konum mundi fullboðið að fá hann. En varla hefði hann nefnt þetta mál nema hann hefði einhverja hugmynd um hvaða konu hann vildi fá. Bolli sagðist vilja biðja Guðrúnar Ósvífursdóttur. Ólafur sagðist engan hlut vilja eiga að því máli. „Er þér, Bolli, það ekki ókunnara en mér, hvert orðtak á var um kærleika með þeim Kjartani og Guðrúnu.“ Þó sagðist Ólafur ekki mundu leggjast á móti hjónabandi þeirra Guðrúnar, ef þeim Ósvífri semdist um það. Skömmu síðar ríður Bolli vestur til Lauga. Hann kallaði Ósvífur á tal við sig og bað Guðrúnar dóttur hans. Ósvífur sagðist ekki hafa á móti því. En Guðrún væri ekkja og ætti því sjálf að ráða gjaforði sínu. Sjálfur sagðist hann fús að gefa Bolla dóttur sína. Gengur nú Ósvífur til Guðrúnar og segir henni að þar sé kominn Bolli Þorleiksson og vilji biðja hennar. Guðrún sagði að Bolli hefði nefnt bónorð við sig og hefði hún svarað því heldur illa, „og það sama er mér enn í hug.“ Þá segir Ósvífur: „Þá munu margir menn mæla að þetta sé meir af ofsa mælt en af fyrirhyggju, ef þú neitar slíkum manni sem Bolli er.“ Og úr því að Ósvífur tók svona í málið, þá aftók Guðrún ekki að giftast Bolla, og var þó hin þverasta í öllu. Synir Ósvífurs hvöttu mjög til þessa máls og þótti mikill fengur að mægjast við Bolla. Og hvort sem að þessum málum var setið lengur eða skemur, þá réðst það af að Guðrún var gift Bolla og var brúðkaup þeirra haldið á Laugum um haustið. Bolli var á Laugum um veturinn. hvert orðtak á var merkir hvað talað var

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=