Í Laxdæla sögu segir frá fólki sem bjó í Laxárdal í Dölum og víðar við Breiðafjörð fyrir um það bil þúsund árum. Hún er ein af Íslendingasögum, skrifuð fyrir 750 árum, og líklega fremur handa fullorðnu fólki en börnum eða unglingum. Þess vegna er hún nokkuð þung að lesa óbreytta. Hér er sagan því mikið stytt og orðalag hennar einfaldað. En margt er alveg óbreytt, þar á meðal flest sem haft er orðrétt eftir fólki í sögunni. Ef þið viljið athuga hvernig þessi gamla saga er óstytt og óbreytt, getið þið fundið hana í öllum útgáfum af Íslendingasögum. Gunnar Karlsson 1995 Sú útgáfa á Laxdælu sem hér lítur dagsins ljós er unnin fyrir efri bekki grunnskólans. Textinn sem Gunnar Karlsson vann, og út kom á bók árið 1995, er notaður óbreyttur en bætt hefur verið við efnisspurningum til að rifja söguþráðinn upp og svo eru sett fram ýmiss konar umræðuefni og verkefni fyrir nemendur. Allt þjónar þetta þeim tilgangi að skýra söguna og gera vinnuna við hana léttari og skemmtilegri. Svör við spurningum er að finna á vef Menntamálastofnunar og þar er einnig umfjöllun um umræðuefnin, ýmsar vangaveltur og skýringar sem eiga að létta kennurum vinnuna. Í textanum eins og Gunnar gekk frá honum eru allmörg orð sem eiga eftir að koma nemendum spánskt fyrir sjónir. Þau orð þarf að læra og skilja. Eitt af meginmarkmiðum útgáfunnar er að auka orðaforða nemenda grunnskólans. Þessi orð eru skýrð neðanmáls. Vonandi verður þessi útgáfa til þess að auðvelda unga fólkinu að njóta þessarar áhrifamiklu sögu. Ragnar Ingi Aðalsteinsson 2017
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=