Laxdæla saga

46 Eitt sinn lögðu Kjartan og Bolli leið sína suður í Borgarfjörð og hittu þar mann sem hét Kálfur Ásgeirsson, norðan úr Húnaþingi. Hann var siglingamaður og átti skip í Gufuárósi. Kjartan bað Kálf að selja sér skipið hálft og vildi sigla með honum til Noregs. Kálfur var fús til þess. Svo riðu þeir fóstbræður heim og sögðu Ólafi. Honum fannst Kjartan hafa ákveðið ferð sína heldur skjótt en vildi þó ekki banna honum að fara. Litlu síðar ríður Kjartan vestur til Lauga og segir Guðrúnu frá utanferð sinni. Guðrún mælti: „Skjótt hefur þú þetta ráðið, Kjartan,“ og skildist Kjartani að henni líkaði þessi ráðagerð ekki. Kjartan spurði hana þá hvað hann gæti gert fyrir hana í staðinn. Þá bað Guðrún hann að gera eina bón sína. Kjartan hélt að hann gæti gert það. Þá sagði Guðrún: „Þá vil ég fara utan með þér í sumar og hefur þú þá bætt við mig þetta bráðræði.“ Ekki vildi Kjartan það, sagði að bræður hennar væru of ungir en faðir hennar of gamall til að þeir gætu verið án hennar. Hann vildi því að Guðrún væri eftir heima og bað hana að bíða sín í þrjá vetur. Guðrún sagðist engu lofa um það og skildu þau ósátt. Síðan riðu þeir Kjartan og Bolli til skips suður í Borgarfirði, hittu Kálf Ásgeirsson og sigldu til Noregs.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=