Laxdæla saga

39 10. Fyrsta hjónaband Guðrúnar Þegar Guðrún Ósvífursdóttir var fimmtán vetra gömul kom maður að máli við föður hennar á Alþingi og bað hennar. Hann hét Þorvaldur og bjó vestur í Garpsdal í Gilsfirði, auðugur maður en engin hetja. Ósvífur tók því ekki fjarri og var Guðrún föstnuð Þorvaldi með því skilyrði að Þorvaldur keypti handa henni allt sem hana langaði í, þannig að engin kona jafnauðug ætti betri gripi. Ekki var Guðrún að þessu spurð og varð hún ekki glöð við. Þó lét hún undan og giftist Þorvaldi. Þegar þau Guðrún og Þorvaldur voru farin að búa saman vestur í Garpsdal varð hún afskaplega kröfuhörð og heimtaði að Þorvaldur keypti handa henni alla bestu skartgripi sem hún vissi um á Vestfjörðum. Einu sinni bað hún Þorvald að kaupa handa sér einhvern grip. Þorvaldur sagði að hún kynni sér ekkert hóf og sló hana. Þá sagði Guðrún: „Nú gafstu mér það sem okkur konum þykir miklu skipta en það er litaraft gott.“ Sama kvöld kom að Garpsdal maður sem Guðrún þekkti vel og hét Þórður Ingunnarson frá Hóli í Saurbæ. Guðrún spurði hann hvernig hún ætti að launa Þorvaldi þá svívirðingu sem hann hefði gert henni. Þórður brosti og stakk upp á að hún saumaði handa Þorvaldi skyrtu með flegnu hálsmáli eins og kvenskyrtur hefðu. Síðan gæti hún skilið við hann fyrir þá sök að hann gengi í kvenmannsfötum. Þetta gerir Guðrún, segir skilið við Þorvald og fer heim að Laugum. Þau höfðu þá búið saman tvo vetur. litaraft merkir litarháttur (í andliti)

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=