Laxdæla saga

118 34. Þeim var ég verst Fjórum vetrum eftir drukknun Þorkels Eyjólfssonar kom Bolli Bollason á skipi sínu til Eyjafjarðar. Hann reið með förunautum sínum vestur um sveitir, og voru þeir tólf saman. Þeir voru allir í skarlatsklæðum og riðu í gylltum söðlum. Bolli hafði skarlatskápu rauða, var gyrtur Fótbít og hafði látið gullbúa hjöltin. Hann hafði gylltan hjálm á höfði og rauðan skjöld á hlið og dreginn á riddari með gulli. Þeir riðu til Helgafells og var Guðrún fegin syni sínum. Síðan fór Bolli vestur til Sælingsdalstungu og var þar um veturinn. Árið eftir tók Snorri goði sótt og andaðist. Þá tóku Bolli og Þórdís við búi í Tungu. Varð Bolli mikilhæfur maður og vinsæll. Eitthvert sinn kom Bolli til Helgafells, því að Guðrúnu þótti ávallt gott er hann kom að finna hana. Bolli sat hjá móður sinni og töluðu þau margt. Þá mælti Bolli: „Muntu segja mér það, móðir, er mér er forvitni á að vita? Hverjum hefur þú manni mest unnað?“ Guðrún svarar: „Þorkell var maður ríkastur og höfðingi mestur. En enginn var maður gjörvilegri en Bolli og albetur að sér. Þórður Ingunnarson var þeirra vitrastur og lagamaður mestur. Þorvalds get ég að engu.“ Þá segir Bolli: „Skil ég þetta gerla, hversu hverjum var farið bænda þinna. En hitt hefur þú enn ekki sagt hverjum þú unnir mest. Þarftu nú ekki að leyna því lengur.“ „Fast skorar þú þetta, sonur minn,“ segir Guðrún. „En ef ég skal það nokkrum segja, þá mun ég þig helst velja til þess.“ Bolli bað hana gera það.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=