106 Þá mælti sveinninn: „Þá sat maður í smeltum söðli, í gulgrænum kyrtli. Hann hafði mikið fingurgull á hendi. Sá maður var hinn fríðasti sýnum og mun enn vera ungur, jarpur á hárslit og fer allvel hárið.“ Helgi svarar: „Vita þykist ég hver sá maður mun vera. Þar mun vera Þorleikur Bollason.“ Þannig lýsti smalamaður þeim förunautum svo greinilega að Helgi þekkti þá alla. Hann undraðist mest að komast að því að þeir Lambi Þorbjarnarson og Þorsteinn svarti væru með í förinni og þótti undarlegt að þeir skyldu vera í liði með Þorgilsi Höllusyni og sonum Bolla. Helgi þóttist vita að þessir menn væru á leið til fundar við sig og skipaði svo fyrir að konur þær sem voru í selinu skyldu snarast í karlföt og ríða sem hraðast heim að Vatnshorni til að safna liði. Riðu þær í burt frá selinu, fjórar saman. Þeir Þorgils stigu nú á bak og riðu fram úr skóginum. Þá sáu þeir fjóra menn ríða frá selinu. Sumir förunautar Þorgils sögðu að þeir skyldu ríða eftir þeim sem skjótast. En Þorleikur Bollason vildi að þeir kæmu fyrst við í selinu, „því að það ætla ég síður að hér sé Helgi og hans fylgdarmenn. Sýnist mér að þetta séu konur einar.“ Þessu réð Þorleikur og snúa þeir heim að selinu. Þeir Helgi loka selsdyrunum og taka vopn sín. Fimm voru þeir inni í selinu: Helgi, Harðbeinn sonur hans, tólf vetra gamall, smalamaðurinn og tveir menn aðrir. Selið var þannig byggt að mæniás var í miðju þaki endilöngu. Hann lá á gaflhlöðum báðum megin og stóðu ásendarnir út af. smeltur merkir skreyttur mæniás er tré sem liggur eftir endilöngu húsinu efst og heldur þakinu uppi gaflhlað er efsti hluti húsgaflsins, oftast í lögun eins og þríhyrningur
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=