Gyðingdómur - Sáttmáli þjóðar

G Y Ð I N G D Ó M U R 35 Hanukkah (ljósahátíðin) Í nóvember–desember halda gyðingar hátíð sem heitir hanukkah. Orðið þýðir „að vígja.“ Það vísar til endurvígslu musterisins í Jerúsalem árið 164 fyrir Krist, þegar gyðingurinn Júdas Makkabeus og menn hans unnu sigur á Sýrlendingum. Antíokkus Epipfanes, konungur Sýrlendinga, hafði ekki aðeins bannað gyðingum að stunda trú sína, heldur hafði hann einnig vanhelgað musterið með því að fórna þar svínum. Þar sem svínið er óhreint dýr í augum gyðinga, var þeim gróflega misboðið og þeir gerðu uppreisn gegn kúgurum sínum. Þegar Ísraelsmenn höfðu náð musterinu aftur á sitt vald hreinsuðu þeir það af guðalíkneskjunum sem hafði verið komið þar fyrir en eins og sagt var frá hér að framan er tilbeiðsla á líkneskjum bönnuð í gyðingdómi. Gyðingarnir kveiktu á stórum lampa í musterinu með olíu en áttuðu sig þá á því að olían mundi aðeins duga í einn dag. Þeir leituðu ákaft um alla borgina að meiri olíu en fundu hana hvergi. En það undarlega gerðist, segir sagan, að olían dugði í átta daga. Þetta var talið merki þess að Guð hefði komið gyðingum til bjargar, því hann hefði verið svo ánægður með að þeir höfðu náð musterinu á sitt vald á ný. Hátíðin stendur í átta daga. Á hverjum degi er kveikt á nýju kerti á átta arma ljósastiku, þar til búið er að kveikja á þeim öllum. „Á síðasta hanukkah kveiktum við á kertum og sungum söngva á hebresku. Svo fengum við gjafir frá mömmu og pabba. Við fórum líka í teningaspil sem heitir dreidel.“ Rebekka kveikir á hanukkah-kertum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=