Finnbjörg - rafbók

GOTT AÐ VITA UM FINNBJÖRGU Finnbjörg er svolítið óvenjuleg kennslubók um málfræði og stafsetningu vegna þess að í henni eru engin verkefni. Í stað þeirra er að finna yfirlit yfir reglur og útskýringar á þeim. Til þess að auðvelda þér að skilja reglurnar eru sýnd ýmis dæmi um hvernig má nota þær. Í fyrri hluta Finnbjargar er fjallað um málfræði. Í seinni hlutanum er fjallað um stafsetningu og greinarmerki. Málfræði- og stafsetningarreglur eru misflóknar. Sumar þeirra kanntu áreiðanlega nú þegar. Aðrar áttu eftir að læra smám saman eftir því sem líður á skólagöngu þína. Um öll tungumál gilda ýmsar reglur, sumar flóknar en aðrar einfaldar. Málfræði er safn af mismunandi reglumsem lýsa því hvernig tungumál er notað. Þótt sömu reglur gildi ekki í neinum tveimur tungumálum eru þær oft svipaðar í skyldum málum eins og ensku, dönsku og íslensku. Reglur um stafsetningu eru öðruvísi en reglur um málfræði. Þær reglur sem nú eru í gildi eru frá árinu 1918 og hafa lítið breyst frá þeim tíma. Fram að því höfðu ekki gilt neinar samræmdar reglur um stafsetningu og gátu menn í raun skrifað eins og þá lysti. Tilgangurinn með því að læra um reglur í málfræði og stafsetningu er margs konar. Í fyrsta lagi má nefna að nauðsynlegt er að skilja reglur um eigið tungumál og að læra að beita þeim. Í öðru lagi er skilningur á eigin tungumáli mikilvægur til þess að geta lært önnur tungumál. Finnbjörg er einkum ætluð nemendum á miðstigi grunnskólans. Bækurnar Málfinnur og Skriffinnur fjalla um svipað efni en þær eru ætlaðar nemendum á unglingastigi. Öllum þeim sem komu að þessu verki eru færðar bestu þakkir fyrir. Hafnarfirði á þorra 2008 Svanhildur Kr. Sverrisdóttir

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=