Finnbjörg - rafbók

6. MÁLSHÆTTIR OG ORÐTÖK Málshættir eru stuttar og hnitmiðaðar málsgreinar. Þeir eru sjálfstæðir og skiljast án sam­ hengis. Þeir innihalda oft ljóðstafi og stundum rím. Í þeim er oft líkingamál líkt og í ljóðum. Málshættir hafa varðveist frá kynslóð til kynslóðar án þess að nokkur viti hverjir höfundar þeirra eru. Þeir fela oft í sér einhver spakmæli, lífsspeki eða boðskap. Orðtök eru að sumu leyti svipuð málsháttum. Þau eru hins vegar ekki sjálfstæð og þurfa samhengi til að merking þeirra skiljist. Orðtök eru yfirleitt orðasambönd en ekki fullgerðar setningar. Nokkrir málshættir Af annarra fé er hver örlátastur. Af máli má manninn þekkja. Aldrei skyldi seinn maður flýta sér. Allt tekur enda um síðir. Aumur er öfundlaus maður. Betra er seint en aldrei. Bragð er að þá barnið finnur. Ekkert stríð, enginn sigur. Engin rós er án þyrna. Enginn gerir svo öllum líki. Enginn hefur sviða í annars sári. Frelsi er fé betra. Illa gróa gömul sár. Margt er öðru líkt. Margur er knár þótt hann sé smár. Margur geldur góðviljans. Margur verður af aurum api. Morgunstund gefur gull í mund. Oft er lyginn langorður. Oft kemur skúr eftir skin. Safnast þegar saman kemur. Sannleikurinn er sagna bestur. Sá er sæll er sínu ann. Nokkur orðtök Eiga í vök að verjast. Fara fyrir ofan garð og neðan. Finna einhvern í fjöru. Gera einhverjum bjarnargreiða. Gera úlfalda úr mýflugu. Hafa mörg járn í eldinum. Heltast úr lestinni. Hitta naglann á höfuðið. Láta hendur standa fram úr ermum. Leggja árar í bát. Leggja höfuðið í bleyti. Leika við hvern sinn fingur. Liggja á glámbekk. Liggja vel við höggi. Malda í móinn. Ruglast í ríminu. Saga til næsta bæjar. Slá slöku við. Slá tvær flugur í einu höggi. Taka í taumana. Vakna við vondan draum. Vefjast tunga um tönn. Vera með lífið í lúkunum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=